14. febrúar, 2011

Metró, sporvagn, strætó?

Morgunblaðið er með ágæta umfjöllun um neðangjarðarjarðarlestir í blaðinu í dag. Eyjan gerði í kjölfarið frétt um málið, sem lesa má hér.

Það er fagnaðarefni að í Háskól Íslands sé fólk að velta þessum hlutum fyrir sér, eins og fram kemur í fréttinni. Mér finnst Háskóli Íslands leggja furðu lítið af mörkum til borgarsamfélagsins, sem hann er þó hluti af. Skólinn þarf auðvitað að taka miklu virkari þátt í því hvernig við byggjum upp gott borgarsamfélag, og hann þarf líka að ganga á undan með góðu fordæmi í skipulags-, samgöngu og umhverfismálum. Það gerir hann því miður ekki, þótt vonandi sé að rofa eitthvað til í þeim efnum. Frumkvæði jarðlestahópsins í raunvísindadeildinni, er jákvætt skref.

Sjálfur er ég ekki sannfærður um að jarðlestir séu framtíðin fyrir Reykjavík. Að vísu eru slíkar samgöngur arðbærari og skynsamlegri framkvæmd en flest af þeim jarðgöngum sem kjördæmaþingmenn úti á landi hafa barist fyrir á undanförnum árum, en ólíklegt er að þingmenn Reykjavíkur muni berjast fyrir sambærilegum fjármunum til höfuðborgarinnar. (Þótt yfir 60% landsmanna búi á höfuðborgarsvæðinu, rennur innan við 15% af vegafé til þess svæðis). Sjálfur myndi ég vilja að hærra hlutfall vegagerðarpeninga rynni til Reykjavíkur, en efast um að við myndum eyða þeim í jarðlestir, að svo komnu máli.

Ég held að það sé miklu skynsamlegra að efla strætókerfið, en hugsa um leið fyrir því að í nýjum hverfum, svo sem Örfirisey og Vatnsmýri, geti sporvagnar þjónað á stærstu leiðunum. Allt tal um ‘léttlestarvæðingu’ höfuðborgarinnar er innantómt, að mínu mati. En þegar ný hverfi byggjast, geta frá upphafi verið ákveðnar forsendur í skipulagi, sem íbúarnir þekkja og sækjast í, og borga jafnvel fyrir í íbúðaverði. Þannig yrðu færri bílastæði á íbúð í Örfirisey og Vatnsmýri, en gengur og gerist í borginni almennt. Í staðinn fengju íbúarnir framúrskarandi almenningssamgöngur. Sporvagnaleið gæti legið úr Örfirisey (en þar og á Slippasvæðinu geta búið 10-15 þúsund manns) framhjá Hörpunni, í gegnum miðborgina, út í Vatnsmýri (15-20 þúsund manna byggð) með viðkomu nærri sjúkrahúsinu og við Háskólana tvo. Þetta gerist vitaskuld ekki fyrr en byggist í báðum þessum hverfum, og yrði þá hluti af heildaruppbyggingu hverfanna, rétt eins og skólar og gangstéttir.  Ég tek fram að ég kasta þessari hugmynd fram til umræðu, og nákvæm kostnaðar- og ábatagreining þarf auðvitað að fara fram áður en ákvarðanir verða teknar.

Gróf teikning af hugsanlegri leið sporvagns milli Örfiriseyjar og Vatnsmýrar.

Þétt byggð er forsenda þess að almenningssamgöngur gangi vel upp. Í fréttinni um jarðlestir er tekið dæmi af borginni Rennes í Frakklandi. Þegar tölur um borgirnar tvær eru skoðaðar, sést að í Rennes búa um tvöfalt fleiri en í Reykjavík. Samt er landsvæðið sem borgin stendur á, aðeins hluti af landi Reykjavíkur. Raunar sýnist mér að þéttbýlið í Reykjavík (þá tek ég ekki með Kjalarnesið eða heiðarnar í austri) sé álíka stórt og landið undir Rennes í Frakklandi. Þannig má segja að íbúar Rennes og Reykjavík búi á jafn stóru landsvæði, en fyrir hvern einn Reykvíking, eru tveir Rennes-verjar.

Markmið okkar ætti því að vera skýrt: Hættum að skerða lífsgæði okkar og falleg útivistarsvæði með því að þenja byggðina sífellt meira út. Byrjum strax að þétta, með því að byggja á gömlum iðnaðar- og atvinnusvæðum. Á þeim komast fyrir allir þeir sem eiga eftir að fæðast í, eða flytja til Reykjavíkur næstu 50 árin. Þegar við verðum komin dálítið áleiðis við þetta, getum við farið að tala um sporbundnar samgöngur, hvort sem er ofan- eða neðanjarðar.

20. desember, 2010

Það sem borgarbúar vilja

Capacent spurði borgarbúa í október síðastliðnum hvaða þjónustu Reykjavíkurborg þyrfti helst að bæta. Það einstaka atriði sem flestir Reykvíkingar nefndu var að það þyrfti að bæta almenningssamgöngur, tæp 16%.
Ég hef ekki séð neina umfjöllun um þessar merkilegu niðurstöður. Meira en þúsund Reykvíkingar voru í úrtakinu og 77% svöruðu. Númer tvö á listanum yfir þjónustu sem [...]

8. desember, 2010

Offita Íslendinga

Bæði Rúv og Stöð 2 hafa flutt ágætar fréttir af offitu Evrópubúa í dag og í gær. Fréttirnar eru byggðar á nýrri skýrslu frá OECD sem sýnir að offita hefur meira en tvöfaldast í Evrópu og að Íslendingar eru í hópi feitustu þjóða.
1. Bretland 24,5% offita meðal fullorðinna
2. Írland 23%
3. Malta 22,3%
4. Ísland 20,1%
Þetta eru [...]

6. október, 2010

Borgin mynduð

Þessi grein birtist í nýja blaðinu Fréttatímanum um síðustu helgi. Myndinni fylgdi plakatið sem ég hef birt hér á síðunni:

Borgin mynduð
Í sumar komu 100 Reykvíkingar saman til að gera tilraun, undir yfirskriftinni Myndum borg. Teknar voru ljósmyndir af þremur mismunandi útgáfum af Reykjavík: Bílaborginni, hjólaborginni og strætóborginni. Myndirnar sýna hvernig venjuleg gata í Reykjavík liti [...]

27. september, 2010

Útgjöld heimilanna

Útgjöld heimilanna eru meira áberandi nú eftir hrun en áður, sem eðlilegt er. Nýjasta rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna var birt á síðasta ári og byggir á stórri rannsókn sem gerð var á árunum 2006 til 2008.
Stærstu útgjaldaliðir heimilanna samkvæmt þeirri rannsókn eru þessir:
Húsnæði, hiti og rafmagn: 25,9% (hlutfall af öllum neysluútgjöldum heimilisins)
Ferðir og [...]

20. september, 2010

Tillaga verður að veruleika

Á laugardaginn var formlega tekin í notkun ný hjólavefsjá fyrir Reykjavík, http://www.hjolavefsja.is. Eins og lesendur síðunnar muna fluttum við fulltrúar D lista í umhverfis- og samgönguráði tillöguna fyrir nokkrum vikum. Hún var að lokum samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, og með góðri samvinnu okkar og meirihlutans hefur nú tekist að opna flotta hjólavefsjá. Ég skora [...]

1. september, 2010

Tvær tillögur samþykktar

Á fundi umhverfis- og samgönguráðs í gær voru tvær tillögur okkar Sjálfstæðismanna samþykktar.
Sú fyrri var um hjólavefsjá, en talsvert var fjallað um þá tillögu þegar við lögðum hana fram á sínum tíma. (Vísir hér og mbl hér). Þá frestaði meirihlutinn afgreiðslu tillögunnar, en samþykkti hana svo í gær. Tillagan hljómar svona:
„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og [...]

18. ágúst, 2010

Hverjir borga fyrir ókeypis bílastæði?

Góður maður benti mér á grein í New York Times, sem birtist um helgina. Greinina skrifar prófessor í hagfræði í George Mason háskólanum í Bandaríkjunum, Tyler Cowen. Hann hefur skrifað mikið um hagfræði hins daglega lífs og hefur velt fyrir sér matarmenningu, listum og frægð í tengslum við hagfræði. Áhugaverður maður.
Í greininni í Times um [...]

16. apríl, 2010

Ekið á barn

Enn ein fréttin barst í gær um að bíl hefði verið ekið á barn í Reykjavík. Ekkert þekki ég til málsins en vona að meiðsli séu ekki alvarleg og sendi öllum hlutaðeigandi hlýjar hugsanir.
Verstu fréttir sem foreldrar geta fengið er að eitthvað hafi komið fyrir barnið þeirra. Það er þessvegna hörmulegt til þess að vita [...]

14. apríl, 2010

Viltu 20% kauphækkun?

Meðalfjölskylda á Íslandi eyddi á árunum 2005-2007 rúmlega 15% heimilistekna sinna í kaup og rekstur ökutækja. Þetta kom fram í skýrslu frá Hagstofunni í desember. Það hlutfall hefur nánast örugglega hækkað verulega, enda kostar rekstur bíls miklu meira nú en þá (bensínhækkanir, afborgarnir af lánum …) og tekjur heimilanna hafa dregist saman. Varlega áætlað má [...]