31. janúar, 2011

Mannlíf við Tollhúsið

Á síðasta fundi umhverfis – og samgönguráðs lögðum við Hildur Sverrisdóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, fram einfalda tillögu sem ég held að góð fyrir miðborgina. Við lögðum til að bílastæðin sem eru við Tollhúsið verði færð suður yfir götuna. Norðanmegin verði stéttin stækkuð, bekkjum komið fyrir undir vegg og umhverfið gert notalegt fyrir fólk að setjast niður.

Á gangstéttinni við Tollhúsið nýtur sólar ákaflega vel, húsið veitir skjól fyrir norðan áttinni sem skapar svipaðar aðstæður og við Kaffi París. Þarna getur verið sól og hiti, þótt norðan næðingur kæli aðra hluta miðborgarinnar. Bílarnir munu ekkert kvarta þótt þeir þurfi að standa í skugganum sunnanmegin. Við þessa breytingu myndi hið frábæra mósaíkverk Gerðar Helgadóttur líka njóta sín betur og þeir sem versla við Bæjarins bestu eða aðra „taka-með“ staði, gætu sest þarna niður og borðað hádegismatinn og horft á mannlífið á meðan. Ekki þarf að hafa áhyggjur þótt bílastæðum gæti fækkað eitthvað örlítið við þessa breytingu, því auk þess að fjölga þeim sunnan megin götunnar eru stór bílastæðaflæmi austan megin við Tollhúsið og raunar úti á Hafnarbakka líka.

Teikningin hér að ofan er frá ARGOS arkitektastofunni og Landslagi, en hún var unnin í tengslum við samkeppni um Hafnarhúsið fyrir margt löngu. Hilmar Þór Björnsson dustaði svo rykið af tillögunni og birti á vefnum sínum. Ég held að þetta sé of góð hugmynd til að gleymast. Sérstaklega í ljósi þess að nú styttist í opnun Hörpunnar, og stór hluti þeirra sem ætla að ganga úr miðbænum í Hörpuna, mun fara um Pósthússtrætið. Þessi breiða gangstétt undir Tollhússvegnum mun tengjast þeirri leið, og þar með verður komin skemmtileg tenging milli tónlistarhússins og Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu, og upplýsingamiðstöð ferðamanna í Geysishúsinu í Aðalstræti.

Tillögu okkar Hildar var vísað til umsagnar samgönguskrifstofu og verður tekin fyrir aftur á næsta fundi.

20. janúar, 2011

Samfylkingin og Strætó

Í maí lofaði Samylkingin því að auka tíðni á leiðum Strætó, bæta þjónustuna og gera Strætó að alvöru valkosti.
Í júní myndaði Samfylkingin meirihluta með Besta flokknum og kynnti borgarbúum málefnasamning og lofaði þar að efla almenningssamgöngur „auka ferðatíðni og bæta leiðakerfi strætós.“
Í sama málefnasamningi var líka sagt að meirihlutinn ætlaði að nota vefinn www.betrireykjavik.is „til [...]