Ljósin kveikt

Þegar góðærisveislan reis sem hæst í fyrra, birtust einstaka sinnum skynsamir menn í fréttum, kveiktu ljósin og sögðu að partýinu væri lokið. En sagt var að um leið og þeir hurfu af skjánum hafi þeir sem mest græddu á góðærinu slökkt ljósin aftur og haldið fjörinu áfram.

Nú hafa ljósin verið kveikt í ráðhúsi Reykjavíkur. Allt frá því REI málið hófst fyrir 11 mánuðum hefur hvílt myrkur yfir því sem fram hefur farið þar. Flokkar sem lítið áttu sameiginlegt reyndu að vinna saman í 100 daga, án þess að koma sér saman um það að hverju ætti að vinna. Tjarnarkvartettinn söng aldrei eitt einasta lag, því sönghópurinn kom sér ekki saman um lagaval. Hann var veikasti meirihluti þessa kjörtímabils og entist aðeins í 100 daga. Sá meirihluti sem nú er að fara frá reyndist heldur ekki nógu sterkur. Við vorum allt of lengi að taka ákvarðanir og þegar sum okkar héldu að búið væri að taka þær, reyndust þær skyndilega komnar upp í loft aftur. Það er erfitt að vinna við þannig aðstæður.

Margt gekk hinsvegar vel í meirihlutanum, sem ekki margir nenna að halda til haga núna. Við lækkuðum til dæmis skatta á borgarbúa, leystum hnútinn á Laugavegi 4 og 6 og björguðum þessu viðkvæma svæði frá annaðhvort algerri friðun eða illa staðsettu hóteli. Miðborgin var tekin fastari tökum en oftast áður, einsog allir gestir hennar hafa séð. Nýjar lausnir í samgöngumálum voru kynntar, sem fólust meðal annars í fleiri hjólreiðastígum og betri strætó. Og þannig mætti raunar áfram telja. Ég óska Ólafi F. Magnússyni alls hins besta og þakka fyrir samstarfið.

En nú erum við aftur komin í meirihluta með Framsókn. Oddvitarnir frá því síðast eru horfnir á braut, Björn Ingi til annarra starfa og Vilhjálmur vék til hliðar. Ég er spurður hvernig við getum treyst Framsóknarmönnum aftur eftir svikin síðast. Ég svara því til að síðast ræktuðum við illa sambandið á milli flokkanna þegar mest reið á. Fyrir vikið vantreystu Framsóknarmenn okkur og eina vitræna skýringin á slitum þeirra síðast finnst mér vera að þeir héldu að við værum að mynda annan meirihluta bak við þá. Gamlir framsóknarsleðar fullyrtu það við Björn Inga. Það var hinsvegar fjarri sanni og það var ekki fyrr en ég fékk símhringingu frá Vilhjálmi, þar sem ég sat og át rækjubrauð í Höfða ásamt Óskari Bergssyni, að það rann upp fyrir mér að meirihlutinn væri sprunginn. Fyrst þá hófum við máttlausar tilraunir til að brjótast inn í samdrátt hins laglausa Tjarnarkvartets. Þeim tilraunum okkar lauk þegar Óskar Bergsson kom til okkar í fundarherbergi Reagans og Gorbatsjovs í Höfða og sagði: „Þetta er búið“. Ég efast um að leiðtogar stórveldanna hafi verið mikið svekktari 20 árum fyrr, en við urðum á þeim tímapunkti. Aumingja Óskar fékk væna gusu af svekkelsi framan í sig, þótt hann fullyrti að hann hefði ekki vitað hvað Björn Ingi aðhefðist. Ég hef ekki talað mikið við Óskar eftir þetta, en það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég talaði við hann í síma á dögunum að fram að þessum ósköpum áttum við ágætt samstarf sem var hreinskilið þótt við værum oft ósammála. Nú tökum við upp þann þráð og ég hef enga ástæðu til ætla annað en að samstarfið verði traust.

Ég vænti mikils af Hönnu Birnu sem borgarstjóra. Hún þarf að leiða alla borgarstjórnina og starfsmenn borgarinnar í gegnum þá erfiðleika sem fylgja meirihlutaskiptum og hún mun gera það vel. Þegar því er lokið er ég sannfærður um að góður starfsfriður náist í borgarstjórn, bæði innan meirihlutans og milli minnihluta og meirihluta. Það er mikilvægt að málefnasamningur hins nýja meirihluta sendi skýr skilaboð um það hverskonar borg við viljum sjá. Það eru erfiðir tímar framundan í efnahagsmálum og við verðum að spara. En á sama tíma þurfum við að horfa lengra og vera tilbúin þegar ástandið fer að skána. Þá vill fólk aftur fara að kaupa íbúðir og velja sér hverfi til að búa í. Þá þarf Reykjavík að vera tilbúin og það er meðal verkefna þessa meirihluta að tryggja að svo verði.