Göngugata á Laugavegi

Það er verið að hugsa um að gera Laugaveginn að göngugötu í nokkrar vikur í sumar, á milli Vitastígs og Skólavörðustígs. Í gær þegar ég hjólaði Laugaveginn tók ég videó af þessum kafla. Meðal annars til þess að ég og aðrir gætum séð hvað kaflinn er stuttur, og hvaða verslanir og þjónusta er á þessum kafla. Myndbrotið er tekid kl. 19:00 24. maí 2011. Þið afsakið lítil gæði á mynd og myndatöku. Ég tók þetta á símann minn.

Laugavegur milli Vitastígs og Skólavörðustígs from gislimarteinn on Vimeo.

Þess má geta að starfsfólk umhverfis- og samgöngusviðs gekk í hverja einustu búð og veitingastað á þessum kafla og yfirgnæfandi meirihluti fólks var hlyntur því að tilraunin yrði gerð. Gatan verður hinsvegar aftur gerð að bílagötu að tilrauninni lokinni og niðurstöður ýmiskonar talninga verða metnar.

Áfram verður hægt að aka allar þvergöturnar á þessum kafla (og þið sjáið í myndbrotinu), og fjöldi bílastæða er í næstu götum, m.a. þrjú bílastæðahús.

84% þeirra sem fara um Laugaveginn eru gangandi eða hjólandi, 16% eru á bílum, samkvæmt talningu sem gerð var sumarið 2009. Rýmið fyrir þessi 16% er hinsvegar rétt um helmingurinn af svæðinu á milli húsanna.