15 metra regla

Á fundi umhverfis- og samgönguráðs í gær lögðum við fulltrúar D-lista fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði telja að hverfa eigi frá innleiðingu svokallaðrar 15-metra reglu að svo komnu máli.

Hugmyndafræðin á bak við regluna er skiljanleg og jákvætt er að leitað skuli leiða til að sorphirða standi undir sér á sanngjarnan hátt. Sanngjarnt er að þeir sem valda auknum kostnaði við sorphirðu umfram aðra, hafi val um að annað hvort bregðast við til að lækka þann auka kostnað, eða greiða fyrir hann. Slíkar leiðir eru sanngjarn kostur í staðinn fyrir að sé sett flöt gjaldheimta á alla borgarbúa.

Ef fara á í slíkar aðgerðir er hins vegar nauðsynlegt að gætt sé að jafnræði, sanngirni og góðu samstarfi við borgarbúa. Því miður hefur ekki tekist að tryggja að útfærsla reglunnar uppfylli þessi skilyrði.

Nokkur ár eru síðan fyrst komu fram hugmyndir um að útfæra einhverja reglu sem gengi út á að fólk sem hefði tunnur sínar svo langt frá götu að meiri vinna væri að ná í þær en aðrar tunnur þyrfti að borga hærra gjald en þeir sem hefðu tunnur sínar nálægt götu og spöruðu borginni þannig vinnu og pening. Þetta er ekki óskynsamleg meginregla og nokkur íslensk sveitarfélög hafa gert þetta, og fjölmörg sveitarfélög á norðurlöndunum. Hér í Reykjavík eru dæmi um að fólk hafi tunnur sínar ofaní kjallara á bak við tvær læstar dyr, og fær því miklu meiri þjónustu frá borginni en þeir fjölmörgu sem fært hafa tunnuskýli sín út að götu. Hugmyndin er að gjaldið endurspegli með einhverjum hætti þá þjónustu sem fólk óskar eftir með staðsetningu tunnunnar.

Regla sem þessi þarf hinsvegar að vera ákaflega vel útfærð og sanngirni gagnvart borgarbúum þarf að gæta í hvívetna. Í ljós hefur komið að útfærslan á hinni svokölluðu 15 metra reglu er engan vegin fullnægjandi, og þá er best að horfast í augu við það og hverfa frá fyrirliggjandi áætlunum. Sem dæmi má nefna að skipulagsráð Reykjavíkur er nýbúið að samþykkja deiliskipulag fyrir Melana, þar sem beinlínis er sagt að sorpgeymslur skuli vera aftan við húsin. Íbúar þess hverfis ættu þá ekkert val um að færa geymslurnar framfyrir, en sá valkostur átti að vera lykilatriði í breyttu kerfi. Bókun okkar í gær gengur út á að hætt verði við breytingarnar að svo komnu máli, en við viljum að þegar verði hafist handa við að útfæra sorphirðu í Reykjavík með sanngjörnum hætti, þannig að hún standi undir sér og hagrætt verði eins og kostur er í rekstrinum. Svo á að mínu mati að bjóða út rekstur sorphirðu í borginni, en Reykjavík er eina ’stóra’ sveitarfélagið sem enn sér sjálft um sorphirðu. Ég treysti því að hin góðu fyrirtæki sem starfa hér í borginni á þessu sviði myndu ráða starfsfólkið okkar í sorphirðunni í Reykjavík, og við fengjum þannig það besta úr báðum heimum: Góðan og hagkvæman rekstur einkafyrirtækjanna og áratuga reynslu og þekkingu starfsfólks borgarinnar sem sumt hvert hefur unnið ‘í öskunni’ allan sinn starfsaldur.