Hofsvallagata – í kvöld

Í kvöld verðu haldinn íbúafundur um Hofsvallagötuna. Hverfisráð Vesturbæjar stendur fyrir fundinum, en ég er formaður þess ráðs. Ég held að þetta verði stórgóður fundur, en hann markar upphafið að samráðsferli um hönnun götunnar sem ég er viss um að mun nýtast í öðrum hverfum borgarinnar. Það eru nefnilega ‘Hofsvallagötur’ víða í borginni. Götur sem voru merktar sem tengibrautir í skipulagi og ganga þvert í gegnum hverfin, skera í sundur skóla- og tómstundahverfi. Með vaxandi bílaumferð (og stærri bílum) hafa göturnar hinsvegar orðið meiri umferðagötur en áður var, og í næstum öllum hverfum borgarinnar kvarta íbúar undan þessum götum og finnst þær ógna lífsgæðum sínum. Foreldrar þora ekki að senda börnin sín gangandi í tómstundir, og þá hefst skutlið sem aftur kallar á meiri umferð. Sumstaðar er búið að ráðast í breytingar, eins og á Lönguhlíð og Skeiðavogi, en aðrar götur bíða. Meðal annars Hofsvallagatan.

Í tilkynningunni um fundinn segir: Framundan eru breytingar á Hofsvallagötunni. Hverfisráð Vesturbæjar vill að íbúar hverfisins verði með í nýrri hönnun alveg frá byrjun. Samráðsferlið hefst á fundi á fimmtudaginn og stendur yfir í vetur. Ýmsum spurningum þarf að svara:

* Hvernig drögum við úr hraða bílanna?
* Hvernig aukum við öryggi barna á leið í skóla, sund og aðrar tómstundir?
* Hvernig stuðlum við að aukinni umferð gangandi og hjólandi?
* Hvernig gerum við götuna fallegri?
* Getur gatan orðið ‘miðja hverfisins’ eða hjarta þess?
* Eigum við að hverfa frá skilgreiningu götunnar sem aðalbrautar og opna aftur götur sem hefur verið lokað svo umferðin dreifist betur?
* Fyrst og fremst er verið að hugsa um Hofsvallagötu suður af Hringbraut, en er efri hlutinn kominn á tíma líka?

Hofsvallagatan eins og hún er nú er að margra mati ógn við öryggi og lífsgæði Vesturbæinga, en markmiðið með nýrri hönnun er að hún auki lífsgæði okkar allra.

Fundurinn verður tvískiptur. Fyrst verður verkefnið kynnt í stuttum erindum, en í síðari hluta er orðið laust og gestir hvattir til að spyrja og leggja fram sína sýn. Fundarmenn hafa einnig tækifæri til að skilja eftir skriflegar ábendingar.