Skóginum í Öskjuhlíð bjargað

Í umhverfis- og samgönguráði í dag var ákveðið að verða ekki við kröfu Isavia (sem rekur m.a. Reykjavíkurflugvöll) um að fella stóran hluta elsta skógarins í Öskjuhlíð. Á síðasta fundi ráðsins var málinu frestað að ósk okkar Árna Helgasonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Við lögðumst gegn því að trén yrðu felld (eins og kom fram í fjölmiðlum), og óskuðum umsagnar Skógræktarfélags Reykjavíkur. Umsögn þeirra barst á fundinn í dag og þar segir meðal annars: „Ekki fer á milli mála að um verulega spillingu á útivistarskóginum í Öskjuhlíð verður að ræða ef fyrirætlanir Isavia ná fram að ganga.“ Og einnig:

Skógræktarfélag Reykjavíkur leggst alfarið gegn þeirri umfangsmiklu trjáeyðingu sem í uppsiglingu er í Öskjuhlíð. Það tekur trjáplöntur hálfa öld að ná þeirri hæð sem trén í Öskjuhlíð hafa náð.

Í umsögninni er líka bent á að Öskjuhlíðin er fjölsóttasta útivistarsvæði landsins samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir nokkrum árum. Þar hefur verið ræktaður skógur síðan um 1950, en þau tré sem Isavia vildi nú fella eru einmitt í þessum elsta hluta.

Það er erfitt að verðmeta tré, en það hefur þó verið gert víða um heim og er í auknum mæli gert hér á landi. Þessa dagana er til dæmis verið að verðmeta Heiðmörkina í mjög spennandi verkefni hjá Háskóla Íslands. Einnig má nefna að aðeins örfá er eru síðan 500 tré í Þjóðhátíðarlundinum frá 1974 voru felld í leyfisleysi og þegar málið var kært komst Hæstiréttur að því að tjónið mætti meta á 20 milljónir. Í ljósi þess að sá skógur var miklu yngri en skógurinn í Öskjuhlíð og í ljósi fjölda trjáa og vinsælda Öskjuhlíðar, hélt ég því fram í útvarpinu að Öskjuhlíðina mætti hæglega verðmeta á tugi milljóna.

Ég fagna því þess vegna mjög að umhverfis- og samgönguráð hafi sameinast um að afgreiða erindi Isavia með eftirfarandi hætti: „Eftir að hafa farið yfir þau gögn sem borist hafa getur Umhverfis- og samgönguráð ekki orðið við beiðni Isavia um fellingu trjáa í Öskjuhlíð.“ (Vinstri græn tóku að vísu ekki þátt í bókuninni og vildu fresta málinu).