Hvers vegna byggð í Vatnsmýrinni?

Því er stundum haldið fram að við sem viljum fá blandaða byggð í Vatnsmýrina í Reykjavík, séum sérstakir andstæðingar innanlandsflugsins eða jafnvel landsbyggðarinnar. Ekkert er fjær sanni. Ástæða þess að yfirgnæfandi meirihluti borgarstjórnar vill fá Vatnsmýrina undir byggingarland er eftirfarandi:

Á næstu 20 árum mun Reykvíkingum fjölga um 25 þúsund manns, samkvæmt spám. Mikilvægasta verkefni borgarstjórnar er að svara því hvar þetta fólk á að búa. Í grófum dráttum kemur tvennt til greina: Annarsvegar að brjóta nýtt útivistarland undir byggð austan núverandi byggðar í Úlfarsárdal eða Geldingarnesi og hinsvegar að að þétta byggðina með því að byggja á landi sem þegar hefur verið brotið undir einhverskonar starfsemi og er innan núverandi byggðar. Langstærsta og best staðsetta landið af þeim toga er Vatnsmýrin.

Þegar borgarstjórn ákveður hvort betra sé að þenja byggðina áfram út til austurs eða hvort byggja eigi inn á við þarf að meta ýmsa þætti. Samgöngur eru næst stærsti útgjaldaliður heimilanna í borginni, á eftir húsnæði en á undan matarkörfunni. Kannanir sýna að yfir 70% þeirra sem myndu búa í nýju hverfi austast í borginni, færu einir á bíl til og frá vinnu. Ferðatími þeirra væri að líklega 40 mínútur á dag og kostnaður við það mikill. Kannanir sýna að fólk sem býr nær atvinnukjörnunum ferðast frekar gangandi, hjólandi eða með strætó til og frá vinnu og sparar sér þannig mikla fjármuni, dregur úr umferð á götunum og þar með mengun, hávaða og umferðarslysum. Það felast mikil gæði í hinum frábæru úthverfum okkar austast í borginni, en göngufæri í vinnuna er almennt séð ekki meðal þeirra.

Fasteignasalar hafa margsinnis lýst því yfir að mest eftirspurn sé eftir íbúðum á miðlægum svæðum í Reykjavík, og fermetraverð staðfestir það. Vatnsmýrinn hefur einnig fengið flest svör þegar borgarbúar eru spurðir á hvaða nýbyggingarsvæðum þeir vildu helst búa.

Ef við byggjum í Vatnsmýri erum við að koma til móts við óskir borgarbúa, við styttum ferðatíma í borginni, drögum úr umferð og mengun, gefum fleirum kost á að lækka útgjöld heimilisins til samgöngumála og sköpum líflegt og fallegt borgarumhverfi sem verður borgarbúum og landsmönnum öllum til sóma. Þetta er ástæðan fyrir því að ég og fleiri viljum að Reykjavíkurflugvelli verði fundinn annar góður staður í eða við Reykjavík, svo allir landsmenn geti notið öflugrar, þéttrar og skemmtilegrar höfuðborgar.