Fáránleg gönguljós

Í umhverfis- og samgönguráði á þriðjudaginn lögðum við Hildur Sverrisdóttir fram tillögu um að tími fyrir gangandi yrði lengdur á gönguljósunum á Hringbrautinni á móts við Stapa, þar sem áður var Bóksala stúdenta en er nú Lýðheilsudeild Háskólans. Þetta eru ein fjölförnustu gönguljós borgarinnar, með stöðugan straum stúdenta og annarra, enda er þetta eina skipulagða gönguleiðin á milli miðborgarinnar og Háskólans. Maður hefði því haldið að borgin og HÍ vildu gera þessa leið greiða og örugga.

En svo er ekki. Tíminn sem fólki gefst til að komast yfir er fáránlega stuttur. Græni karlinn logar í tæpar 9 sekúntur áður en hann byrjar að blikka. Um leið byrjar gult ljós að blikka fyrir ökumenn. Flestir þeirra telja, ranglega, að gult blikkandi ljós gefi þeim leyfi til að aka af stað. En þeir mega því aðeins aka af stað að enginn gangandi sé á leið yfir götunna. Eða eins og segir í tilkynningu frá Umferðastofu: „Þegar gult ljós blikkar á gangbrautarljósum þá mega ökumenn ekki aka af stað fyrr en öruggt er að það er engin gangandi vegfarandi á leið sinni yfir akbrautina. Ekki aka af stað fyrr en búið er að líta til beggja hliða og fullvissa sig um að það er engin gangandi vegarandi á leið yfir akbrautina. Það má ekki aka af stað og hindra för gangandi þótt gult ljós sé farið að blikka.“

Eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan, sem ég tók milli jóla og nýárs, er útilokað að komast yfir á þeim tíma sem er gefinn ef eitthvað örlítið tefur för, t.d. barnavagn eða slæm færð, að ekki sé talað um ef þetta tvennt fer saman. Aldraðir eða aðrir sem ganga hægt eiga heldur ekki séns á að komast yfir. Ég fæ nú engin óskarsverðlaun fyrir þessa myndatöku, og hefði til dæmis átt að byrja að taka rétt áður en græni karlinn kom, en ég byrjaði að taka upp sekúntu eftir að hann birtist. Einsog áður segir logar hann í tæpar 9 sek. (Ef myndbandið sést ekki, prófið þá að ýta á ‘refresh’, þá ætti það að koma).

Í tilvikinu hér að ofan hefði ekki einu sinni dugað að ökumenn hefðu farið að lögum og beðið á meðan gula ljósið blikkaði og unga konan var að reyna að komast yfir, heldur hefði heildartíminn þurft að vera lengri, og leiðin hefði þurft að vera rudd. (Ég tek fram að ég fór aftur á staðinn í morgun, til að tímamæla, og sá þá að leiðin hafði verið rudd í gær. Plús fyrir það).
Tillögunni okkar var vel tekið og fór svo að lokum að allir ráðsmenn sameinuðust um að bera tillöguna upp í anda þess ágæta þverpólitíska samstarfs sem svo oft næst í umhverfis- og samgönguráði og þar af leiðandi samþykktu hana allir og málið fær vonandi farsælan endi fljótlega.