Öll Reykjavík vestan Snorrabrautar?

Arkitektabloggið hans Hilmars Þórs Björnssonar er með því skemmtilegasta sem ég les á netinu. Í nýlegri færslu fjallar hann um þéttleika borga og birtir frábæra mynd af síðunni Per Square Mile, sem ég endurbirti hér (smellið til að sjá hana stærri).

Myndin sýnir semsagt hversu stórt svæði mannkynið þyrfti ef það byggi í borg sem væri jafn þétt og þær borgir sem eru taldar hér að ofan. Fjörugar umræður sköpuðust á síðunni hans Hilmars, sem ég hvet ykkur til að lesa. Gunnar Smári Egilsson birti þennan útreikning: „Samkvæmt wikipediu eru 20.980 Parísarbúa á hvern ferkílómetra, 1.505 íbúar í Houston á hvern ferkílómetra en 436 Reykvíkingar. Ef allir jarðarbúar byggju í borg eins og París tæki sú borg 3,4% af USA, borg eins og Houston tæki 47% af USA en borg eins og Reykjavík þyrfti allt USA (með Alaska) + 62% af Kanada (Kanada er stærra en USA). Skrítin borg Reykjavík.“

Sjálfur lagði ég nokkur orð í belg þegar umræðan fór að snúast um kosti og galla þéttrar byggðar.

Reykvíkingum mun fjölga um 25 þúsund manns á gildistíma nýs aðalskipulags, til 2030. Hvaða áhrif mun það hafa á borgina að setja allan þennan fjölda í Úlfarsfell (þar sem skipulögð var 25 þúsund manna byggð á sínum tíma) miðað við að setja hann vestan Kringlumýrarbrautar, t.d. í Vatnsmýrina?

Ef þessi fjöldi þarf á hverjum degi að aka frá Úlfarsfelli, þvert í gegnum borgina inn að helstu atvinnukjörnum og háskólum, mun það hafa mikil áhrif á bæði þessa íbúa sjálfa, og þá sem búa þarna á milli. Svifryk, hávaði, umferðarmagn, kostnaður við umferðarmannvirki og minna umferðaröryggi gangandi eru fylgifiskar aukinnar umferðar í borginni og fara í þveröfuga átt við þau markmið sem borgin hefur sett sér. Þar að auki munu umferðarteppur aukast og ástandið í Ártúnsbrekkunni á morgnana batnar ekki við að fá 20 þúsund bíla í hana í viðbót, sem kemur niður á lífsgæðum Grafarvogsbúa, Árbæinga og Grafar- og Norðlingaholtsbúa.

Ferðakostnaður fólks í Reykjavík er þegar mjög hár; heimilin eyða meira í bílferðir en í matarkörfuna, og talið er að hjá einstaklingum sé hlutfallið hátt í þriðjungur ráðstöfunartekna Hæst er þetta hlutfall hjá þeim sem lengst þurfa að sækja vinnu en þúsundir Reykvíkinga keyra á hverjum degi í meira en hálftíma til og frá vinnu. Það eru 2-3 klukkutímar á viku, sem gætu farið í annað uppbyggilegra.

Ég tel að úthverfin í Reykjavík séu með þeim allra bestu í heimi, lífleg og falleg og hreint engin svefnhverfi (ég bjó sjálfur í Breiðholti í 25 ár). En mesti grikkur sem við gerum íbúum þar er að byggja stöðugt austan við hverfin og gera þau þannig að gegnumaksturshverfum. 25 þúsund manna byggð í Úlfarsfelli myndi t.d. að endingu vilja aka þvert í gegnum Grafarvog til að komast niður að Sundabraut. Það myndi breyta lífi Grafarvogsbúa til hins verra. Á sama hátt hefur aukin byggð við Elliðavatn, austan Breiðholts leitt til aukinnar umferð á Breiðholtsbraut, en gatan sker Seljahverfi frá öðrum hverfum Breiðholtsins og er mikill farartálmi t.d. fyrir litla fætur sem vilja komast í íþróttaiðkun í ÍR eða fólk sem vill rölta út í búð.

Frekar en að ganga á lífsgæði fólks sem hefur valið sér búsetu í fallegu úthverfi, eigum við að hlúa að þessum hverfum (sum þeirra hafa aldrei verið almennilega kláruð) og hinum stórkostlegu útivistarsvæðum fyrir austan þau. Strendur Grafarvogs eru einstakar, útivistarsvæðin austur af Grafarholti og Úlfarsárdal sömuleiðis, að ekki sé talað um nágrenni Norðlingaholts. Hvers vegna að byggja á þessum einstöku svæðum? Sem betur fer er enginn lengur með hugmyndir um að þenja Breiðholtið lengra ofan í Elliðaárdalinn. Allt þetta myndi rýra lífsgæði borgarbúa, ekki auka þau. Þess vegna eigum við að draga strik aftan við núverandi byggð og byggja inn á við, á gömlum atvinnu- og iðnaðarsvæðum sem eru úr sér gengin. Þétting byggðar þýðir ekki að við byggjum á grænum svæðum. Við eigum að byggja á „brúnum“ iðnaðarsvæðum sem ganga í endurnýjun lífdaga; Hafnarsvæðinu, Vatnsmýrinni, Skeifunni og Ártúnshöfðanum, svo dæmi séu tekin.

Að lokum læt ég þess getið að ef Reykvíkingar byggju jafn þétt og Parísarbúar, sem koma einna best út á myndinni hér að ofan, þá kæmumst við öll fyrir vestan Snorrabrautar (og ég tel að sjálfsögðu Vatnsmýrina með). Það er rétt að taka fram að ég er ekki að leggja til slíka þéttingu, heldur birti þetta til íhugunar fyrir okkur öll, um það hvernig þróun Reykjavíkur hefur verið, og hvernig við ættum að þróa hana á næstu árum. Reykjavík er mesta og besta fjárfesting sem Íslendingar hafa ráðist í, og það skiptir meira máli hvernig við förum með hana heldur en flest það sem karpað er um á Alþingi.