4 Smáralindir við Landspítalann?

Meirihlutinn í Reykjavík hefur nú ákveðið að reyna að keyra í gegn nýtt deiliskipulag Landspítalans við Hringbraut. Deiliskipulagið er að mínu mati mjög vont. Til dæmis eru bílastæðamál á svæðinu mjög illa leyst, og raunar óleyst að stórum hluta. Mikilvæg götuhorn þar sem ættu að standa glæsilegar hornbyggingar eru illa hönnuð og illa nýtt (eitt megin hornið verður til dæmis nýtt undir varaaflstöðvar og bílastæðahús). Gamla Hringbrautin hverfur undir risabyggingar, þrátt fyrir samhljóða óskir skipulagsráðs um annað. Ásýndin að gamla spítalanum hverfur á bak við nýjar byggingar, og þannig mætti áfram telja.

Furðulegast í þessu öllu er þó byggingarmagnið sjálft. Samkvæmt þessu skipulagi ætla Íslendingar að fara að reisa spítala sem verður samtals um 290 þúsund fermetrar. Núverandi Landspítali er 60-70 þúsund fermetrar og Borgarspítalinn 30 þúsund fermetrar (samtals 90-100 þúsund fermetrar). Ástæða nýju byggingarinnar er sameining þessara tveggja spítala, og í því ljósi er mjög sérstakt að sameinaður muni spítalinn verða þrisvar sinnum stærri en þeir tveir hlutar sem eru að sameinast.

Byggingarnar sem fyrir eru á landspítalalóðinni munu standa áfram, og því má segja að nýtt byggingamagn sé um 220 þúsund fermetrar. Það eru tæplega 4 Smáralindir.

Annað sem vekur sérstaka furðu, er að erlendir ráðgjafar sem voru fengnir til að gefa okkur góð ráð um uppbygginguna, lögðu til miklu minna byggingarmagn. Fyrir áratug kom danska rekstrarráðgjafafyrirtækið Ementor hingað, og lagði til að heildarbyggingarmagn þyrfti að vera 120 þúsund fermetrar. Ementor sérhæfir sig meðal annars í sjúkrahússtarfsemi og vann sambærilega greiningu fyrir sjúkrahúsið í Þrándheimi. Hvers vegna ætlum við að hafa sjúkrahúsið 290 þúsund fermetra, þegar erlendir ráðgjafar leggja til 120 þúsund?

Sænska Arkitektastofan White lagði til meira byggingamagn en Ementor, og sagði að 135 þúsund fermetrar væri hæfilegt heildarbyggingamagn. Lengst gekk þó norska arkitektastofan Momentum sem taldi að 130 þúsund fermetrar gætu dugað okkur, en 180 þúsund fermetrar væri líka möguleiki ef Íslendingar væru verulega stórhuga. Niðurstaða Íslendinganna: 290 þúsund fermetrar.

Til samanburðar má geta þess að Nýi spítalinn í Þrándheimi er um 200 þúsund fermetrar, en hann þjónar um 650 þúsund manns, eða öllum norður og suður Þrændarlögum. Nýja Akerhus háskólasjúkrahúsið er 136 þúsund fermetrar og þjónar fleirum en Landspítalinn. Nýja Austfoldar sjúkrahúsið í Noregi er 112 þúsund fermetrar.

Ég skal fúslega játa að það hefur tekið mig tíma að átta mig á ofangreindum staðreyndum. Ég hélt upphaflega að tillagan sem vann hugmyndasamkeppnina gæti verið góð fyrir þetta umhverfi, og í meðförum skipulagsráðs myndi umfangið minnka og agnúar verða sniðnir af. Hið gagnstæða hefur hinsvegar gerst: Byggingarnar hafa þanist út, hæðir bæst við og falleg torg breyst í bílastæði. Ég hef alla tíð verið því fylgjandi að spítalinn fái að byggjast upp á þeim stað sem hann er. Þannig er hægt að nýta þær byggingar sem fyrir eru og nægt pláss er til uppgyggingar á svæðinu. Fyrirliggjandi tillaga er hinsvegar ónæm fyrir umhverfi sínu og gengur gegn markmiðum borgarinnar bæði í samgöngu og skipulagsmálum. Tillagan eins og hún er núna er einfaldlega óásættanleg.