Annað lítið skref (fyrir mannkynið)

Í síðasta pistli sagði ég frá lítilli hugmynd til að gera strætó betri. Hér er önnur sem við Hildur Sverrisdóttir lögðum fram og var líka samþykkt:

Gólfin í biðskýlum Strætó í Reykjavík verði upphituð þar sem því verður við komið. Einnig verði gerð áætlun um upphitun gönguleiða að og frá helstu biðskýlum Strætó.

Með því að hafa hita undir skýlunum og út í götu verður auðveldara að halda þeim hreinum og þurrum, komið er í veg fyrir hættuleg slys sem verða þegar fólk rennur á leið í og úr vagni og jafnvel þótt snjóruðningum sé ýtt inn í skýlin (einsog gerist því miður of oft) munu þeir hægt og rólega bráðna og skýlið verða nothæft.

Það er einnig mikilvægt að forgangsraða strax hvaða gönguleiðir að og frá skýlum skulu hitaðar. Mörg skýli borgarinnar eru gríðarlega mikið notuð, og það myndi bæta þjónustuna verulega ef göngustígar til og frá vinsælustu skýlunum verða þurrir, án sands og salts og hálkulausir allt árið um kring. Einnig ætti að huga sérstaklega að biðskýlum í nágrenni við þjónustuíbúðir aldraðra og grunnskóla borgarinnar.

Framkvæmd þessara hugmynda ætti að haldast í hendur við almenna endurnýjun göngustíga og strætóskýla í borginni, svo kostnaður verði sem minnstur. En það er líka fljótt að skila sér ef við losnum við mjög dýra vetrarþjónustu svo sem ruðninga, söltun og söndun og þessum svæðum, að ekki sé talað um beinbrot og annan skaða af völdum hálku.