Samráð Samfó-style

Metfjöldi athugasemda barst við auglýsingu á nýju deiliskipulagi við Landspítalann við Hringbraut, rúmlega 800. Borgarfulltrúar, og aðallega fulltrúar í skipulagsráði, eru undanfarna daga búnir að vera að fara yfir þessar athugasemdir. Samfylkingin hlýtur að fara yfir þær með sérstakri athygli, enda sagði hún í kosningaáherslum sínum fyrir síðustu kosningar:

Samfylkingin vill efla íbúalýðræði. Með því að greiða götur íbúanna að ákvörðunum er viðurkenndur réttur einstaklinga til upplýsinga og þátttöku við að móta nánasta umhverfi sitt.

Og líka:

Samráð í skipulags-, umhverfis- og skólamálum á að gera markvissara og styrkja aðkomu íbúa og foreldra að lykilákvörðunum.

Þeir sem trúa því ennþá að Samfylkingin meini eitthvað með loforðum sínum, hljóta að gera ráð fyrir því að þegar ríflega 800 íbúar taka sig til og senda inn bréf til að mótmæla „lykilákvörðun“ í skipulagsmálum, þá muni flokkurinn ‘viðurkenna rétt einstaklingana til þátttöku við að móta nánasta umhverfi sitt’.

Það er síðan áhugavert innlegg inn í þetta lýðræðislega ferli að hagsmunaaðilinn í málinu sendir bækling inn í hvert hús í morgun, þar sem einhliða áróður er rekinn fyrir því að þetta umdeilda skipulag verði samþykkt. Hvað ætli yrði sagt ef einhverjir aðrir verktakar sem væru að reyna að koma í gegn umdeildu deiliskipulagi í borginni myndu gera þetta, til þess að reyna að hafa áhrif á ákvörðun lýðræðislega kjörinna fulltrúa?

Ég ítreka:
* Ég vil að Landspítalinn fái að byggja sig upp við Hringbraut.
* Þetta skipulag er hinsvegar ekki gott
* Byggingamagn er allt of mikið
* Uppbyggingin mun draga til sín of mikla umferð.
* Engar lausnir liggja fyrir um það hvernig dregið verður úr neikvæðum áhrifum umferðar á Hlíðabúa, bæði á framkvæmdatíma og um alla framtíð.

Ég hef skrifað heilmikið um Landspítalann. Meðal annars þetta:
Landspítalinn
Lausnir á Landspítalalóðinni
4 Smáralindir við Landspítalann