Reykjavík-Bilbao

Fréttir berast nú af því að ríkisstjórnin hafi samþykkt fyrir sitt leyti að taka yfir byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhússins í Reykjavík. Reykjavíkurborg þarf að sjálfsögðu að samþykkja líka, en flestir eru sammála um að húsið geti ekki staðið eins og það er mikið lengur. Þá eru ýmsir samningar í uppnámi ef ekki verða teknar ákvarðanir.

Ekki er hægt að neita því að ákvarðanir um tónlistarhúsið voru teknar í annarskonar andrúmslofti en nú er á Íslandi. Við töldum okkur ríkustu þjóð heims og því dugði ekki bara að reisa tónlistarhús eða ráðstefnusali, heldur varð byggingin að vera táknbygging fyrir höfuðborgina. Táknbyggingar voru mjög í tísku í uppsveiflunni á undanförnum árum og spruttu upp víða um heim. Gúrka Normans Foster í Lundúnum og tónlistarhús Rem Koolhaas í Porto eru dæmi um þetta. Aðrir arkitektar sem hafa tekið þátt í þessum sirkus eru Gehry, Libeskind, Calatrava og Nouvel, svo dæmi séu tekin. Það þarf ekki að koma á óvart að að minnsta kosti tveir þessara arkitekta (eða starkitekta, einsog þeir eru kallaðir) komu við sögu við undirbúning Tónlistar-og ráðstefnuhallar í Reykjavík. Markið var sett hátt.

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík er tvímælalaust táknbygging í þessum skilningi. Húsið er risavaxið og mjög dýrt. Samkvæmt þeim tölum sem nefndar voru þegar hafist var handa við húsið, er það dýrara en ein frægasta táknbygging síðustu ára; Guggenheim safnið í Bilbao sem Frank Gehry teiknaði.

En hitt ber líka að hafa í huga að Guggenheim safnið skilaði Bilbao miklum tekjum til baka. Talið er að tekjur af safninu á fyrstu tveimur árum þess hafi verið fjórfaldar á við kostnaðinn.

Hugmyndafræðin á bak við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík virðist mér vera svipuð. Vonir standa til að byggingin sjálf verði svo mögnuð að fólk muni beinlínis koma til landsins til þess að sjá hana. Þar leggjum við Íslendingar traust okkar á hinn magnaða Ólaf Elíasson, sem hannar glerhjúpinn utan um bygginguna. Þá verði starfsemin inni í henni líka segull fyrir stórar ráðstefnur og alþjóðlegt tónleikahald, sem hvort tveggja skilar miklum tekjum ef vel gengur. Allar þessar hugmyndir eru vissulega dálítið 2007, en úr því sem komið er þýðir ekkert annað en að vona að þetta geti gengið upp.

Ég fer hinsvegar ekki dult með þá skoðun mína, að rétt eins og margar aðrar „Horfðu á Mig!“ byggingar, gerir Tónlistar og ráðstefnuhúsið okkar ekki nógu mikið fyrir umhverfi sitt. Reykjavíkurborg þarf að tryggja að jafn dýrt hús og þetta skapi líf í kringum sig. Eins og unnið hefur verið að þessu verkefni hingað til, hefur allt púður farið í húsið sjálft, en umhverfi þess verið minni gaumur gefin. Það er ennþá tími til að kippa því í liðinn.