Grafarvogur og þjónusta

Það er hárrétt hjá íbúasamtökum Grafarvogs að það er vond þróun fyrir borgina að þjónusta leggist af í hverfum borgarinnar. Fréttablaðið var með frétt um málið um helgina.

Grafarvogurinn er ákaflega vel heppnað úthverfi með framúrskarandi góða hverfisvitund og hverfisverslun. Hverfið er fjölmennara en Akureyri og verslun og þjónusta hefur gengið vel eins og allir sjá sem koma í Spöngina eða Hverafoldina. En blikur eru á lofti og óþægilega mörg fyrirtæki hafa lagt niður starfsemi í hverfinu á undanförnum misserum, aðallega opinber.

Eitt borgarfyrirtæki er nefnt; Sorpa. Það var sannarlega rangt hjá Sorpu að loka móttökustöð sinni í Grafarvogi á sínum tíma. Því mótmæltum við Kjartan Magnússon harðlega í umhverfisráði og lögðum síðar til að stöðin yrði opnuð á ný. Það var ekki gert og Sorpa áformar raunar að loka enn fleiri móttökustöðvum á „norðursvæðinu“ (Grafarvogur, Höfðarnir, Mosfellsbær) og þau áform virðast vera með fullu samþykki meirihlutans í Reykjavík.

Bankarnir eru líka nefndir. Ég held að vísu að þeir verði að fá að reka sig eins og þeir telja best og raunar hugsa ég að fáir sjái starfsemi þeirra sem sérstaklega mikla samfélagsþjónustu eftir allt sem á undan er gengið. En það er vissulega furðulegt að á sama tíma og þeir verja hundruðum milljóna í að búa til ímynd um persónulega þjónustu og samfélagsvitund, skuli þeir taka ákvarðanir sem færa fólki heim sanninn um annað.

Þáttur ríkisins í þjónustu í Grafarvogi er athyglisverður. Pósturinn, ÁTVR og lögreglan hafa haft útibú þar á undanförnum árum, en hafa nú flutt starfsemi sína úr hverfinu. Eins og venjulega þegar ríkið á í hlut geta viðskiptavinirnir ekki einu sinni mótmælt framkomunni með því að beina viðskiptum annað. Þessir aðilar eru með einkaleyfi á sinni starfsemi og íbúar Grafarvogs verða að gjöra svo vel að fara út úr hverfinu, allir á bíl, til að skipta við þessa aðila. Það er hárrétt hjá formanni íbúasamtakanna að það samrýmist illa stefnu borgarinnar um sjálfbær hverfi og minni bílaumferð, enda hefur borgin kappkostað að halda þjónustu inni í hverfunum, þótt Sorpa hafi ekki tekið þátt í þeirri stefnu. Ríkisstjórnin hreyfir hinsvegar ekki litlafingur til að gera hverfin sjálfbærari. Hvernig samrýmist það að senda alla Grafarvogsbúa uppí bíl til að kaupa rauðvín eða koma pakka í póst, þeirri stefnu að „draga úr þörf fyrir einkabílinn“ einsog segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? Heldur ríkisstjórnin að þessar aðgerðir muni auka hlut gangandi og hjólandi, eins og einnig er stefna hennar?

Ríkisfyrirtækið Pósturinn er með 67 pósthús á landinu. Í Reykjavík búa 33% þjóðarinnar en hér eru 7% pósthúsanna, eða 5 talsins. Nær útilokað er fyrir íbúa Grafarvogs að ganga út á pósthús, og það gildir um flesta borgarbúa. Í Reykjavík eru tvö pósthús vestan Elliðaáa. Gönguleið út á pósthús er mun lengri í Reykjavík en í flestum stærri bæjum úti á landi.

Sama gildir um ÁTVR. Ef íbúar í Grafarvogi vilja skjótast eftir hvítvíni út í fiskisúpu, þurfa þeir að ganga tæpa 10 kílómetra upp í Mosfellsbæ eða upp á Hálsa, þar sem Heiðrún er, en sú gönguleið fær seint verðlaun fyrir að vera aðlaðandi. Ég ætla að fjalla meira um hlut ÁTVR í verslunarhegðun borgarbúa í næsta pistli.

Í stuttu máli er það alveg fráleitt að hverfi í Reykjavík, sem væri fjórða stærsta sveitarfélag landsins væri það sjálfstætt, fái ekki betri þjónustu frá hinu opinbera. Grafarvogurinn hefur á undraskömmum tíma orðið að einum sterkasta hverfiskjarna borgarinnar og þar með landsins, með eigið íþróttafélag, verslun, þjónustu, sundlaug, æskulýðsstarf og í stuttu máli sagt góðan hverfisbrag. Ríkið þarf að hætta að vinna gegn sjálfbærni hverfanna í Reykjavík og byrja að styðja við heilbrigða borgarþróun.