ÁTVR og kaupmaðurinn á horninu

ÁTVR lokaði nýlega ágætri verslun sinni í Grafarvogi. Það gefur tilefni til vangaveltna um hlutverk ríkisins í sjálfbærni hverfa.

Íslendingar eyða á bilinu 3-5% einkaneyslu sinnar í áfengi og tóbak. Önnur matarinnkaup eru svo 10-12% einkaneyslunnar. Það má því glöggt sjá að ef áfengi væri flokkað sem matvara væru áfengiskaup meðal allra stærstu útgjaldaliða í þeim innkaupum. Í ljósi þessa er áhugavert að skoða hvar ríkisvaldið kýs að setja niður útsölustaði þessarar vinsælu neysluvöru. Í Reykjavík eru 7 vínbúðir samkvæmt heimasíðu ÁTVR. Athygli vekur að engin þessara búða getur kallast hverfisverslun. Þær vínbúðir sem helst stóðu undir því nafni voru vínbúðirnar í Grafarvogi og Mjódd. Grafarvogsbúðinni var lokað þrátt fyrir að hafa verið valin „vínbúð ársins“ árin 2006 og 2007 og vínbúðin í Mjódd var á dularfullum forsendum færð yfir í Garðheima.

Þær vínbúðir sem eftir eru, eru við stórar verslunargötur (Austurstræti), umferðargötur (Borgartún), í verslunarmiðstöðvum (Kringlan) eða á óaðlaðandi bílastæðaflæmum sem gera ekki ráð fyrir því að íbúar nærliggjandi hverfa komi gangandi í verslunina (Skeifan, Skútuvogur og Stuðlaháls).

Þeir íbúar Reykjavíkur sem vilja versla í sínu hverfi, verða engu að síður að fara út úr því og inn í aðra verslunarkjarna til þess að kaupa eina vinsælustu neysluvöruna. Það er erfitt fyrir kaupmanninn á horninu að keppa við stóru markaðina þegar þeir geta boðið upp á vínbúð við hliðina á verslun sinni (eins og er raunin í Skeifunni, Kringlunni, Smáralind, Eiðistorgi, Mosfellsbæ og víðar) en hverfisverslanirnar geta það ekki. Vínbúðirnar stýra þannig verslunarhegðun fólks, og draga viðskiptavininn á ákveðna staði, sem í öllum tilfellum eru fjarri kaupmanninum á horninu.

Dæmin úr Grafarvogi sýna að ríkið hefur lítinn áhuga á því að smásöluverslanir þess styði við hverfisverslun og sjálfbærni hverfa. Þvert á móti hvetur ríkið til aukinnar bílaumferðar og óhagræðis með stefnu sinni.