Ný könnun um borgina

Ég fékk í gær nýja könnun Capacent á þjónustu Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga. Könnunin var gerð í október og nóvember 2012 og niðurstöðurnar eru athyglisverðar.

Grunnskólabörnum sem fara fótgangandi í skólann hefur fjölgað verulega, og börn sem keyrð eru í skóla hafa aldrei verið færri. Í nóvember 2009 var 26,6% barna ekið í skólann, en 19,8% nú í haust. Þetta eru fréttir fyrir lýðheilsu borgarbúa.

Flest börn ganga í skólann í Grafarvogi/Kjalarnesi (þessi hverfi eru tekin saman í könnuninni) og Vesturbæ/Miðbæ (tekin saman); 81-82%. Vel gert hjá þessum hverfum. Hæst hlutfall barna sem keyrð eru í skólann (25%) er í Hlíðum/Laugardal/Háaleiti (tekin saman) en þar ganga 57% barna í skólann.

Þegar skoðað er hvernig við fullorðna fólkið ferðumst til og frá vinnu, sjáum við líka mjög jákvæðar niðurstöður. 64,4% fólks fer eitt í bíl til vinnu sinnar, en þetta hlutfall hefur lækkað úr 75,3% árið 2008. Mest munar um fjölgun þeirra sem fara í strætó og þeirra sem fara hjólandi. Rétt er að vekja athygli á því að könnunin er gerð í október og nóvember. Tala gangandi og hjólandi er vafalítið umtalsvert hærri í maí og fram í september. Við munum líka eftir gjörningaveðrinu sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið á meðan þessi könnun var í gangi, í byrjun nóvember. Þá stóð Airwaves yfir og fréttastofa Baggalúts varaði við fjúkandi hipsterum í miðbæ Reykjavíkur. Það var ekki góður hjóladagur.

Eins og dyggir lesendur þessarar síðu vita, hef ég lengi talað fyrir því að fráleitt sé að ætla að segja fólki sem þegar er búið að koma sér fyrir á góðum stað í úthverfi, að breyta samgönguháttum sínum. Meirihluta ævi minnar hef ég búið í úthverfi og átta mig vel á því. Einhverjir munu skipta yfir á hjól eða í strætó, af því þeim finnst það gott eða skynsamlegt, en samgöngumynstrið breytist ekki verulega hjá einstaka hverfum. En til þess að breyta samgöngumynstri Reykvíkinga í heild, þurfum við að fjölga þeim sem búa á stöðum þar sem auðveldara er að skipta um samgönguhætti. 49% íbúa í vestur- og miðbæ fara einir í bíl á leið til vinnu en 83% þeirra sem búa í Grafarvogi/Kjalarnesi. Ef vesturbæingur sem labbar í vinnuna flytur upp í Grafarvog, er mjög ólíklegt að hann haldi áfram að labba í vinnuna. Til þess að fylla ekki allar umferðaræðar enn frekar en orðið er, eigum við að hætta að byggja ný hverfi utan við Grafarvog, Grafarholt og Norðlingaholt.

Að lokum birti ég listann yfir það sem Reykvíkingar vilja helst bæta í borginni: „Hvaða þjónustu telur þú að Reykjavík þurfi helst að bæta?“:

Þriðja árið í röð eru almenningssamgöngur það sem flestir nefna, og aldrei hafa fleiri nefnt þær en einmitt í ár. Þegar við bætist að í öðru sæti eru samgöngumál og í 5. sæti göngu-/hjólastígar og stuðningur við bíllausan lífsstíl, er nokkuð ljóst hvað borgarbúar eru að biðja um. Við þurfum að hjálpa fólki að komast leiðar sinnar á þann hátt sem það helst vill, en á því hafa verið miklar vanefndir undanfarna áratugi. Með hjólaáætluninni Hjólaborginni Reykjavík, góðum stuðningi við Strætó og nýrri hugsun í skipulagsmálum getum við gert Reykjavík að algjörri fyrirmyndarborg á heimsvísu þegar kemur að samgöngumálum. Undanfarna áratugi hefur bílnum verið þjónað ákaflega vel í Reykjavík, á kostnað annarra samgöngumáta. Borgarbúar eru nú að biðja um meira jafnræði í þessum efnum.