Misskilningur Ögmundar

Reykjavíkurborg keypti í gær land í Vatnsmýrinni af ríkinu, en á þessu landi er fyrirhugað að reisa íbúðabyggð til að mæta sívaxandi kröfum fólks um fleiri íbúðir miðsvæðis.

Ögmundur Jónasson segir í samtali við Eyjuna „Það fer hins vegar enginn í framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli ef borgaryfirvöld ætla að halda upp á Hólmsheiði með flugvöllinn í allra næstu framtíð.“

Það er mikill misskilningur hjá ráðherranum að borgaryfirvöld geti flutt flugvöllinn upp á Hólmsheiði. Borgin á ekki þennan flugvöll og fær ekki einu sinni leigu fyrir borgarlandið sem hann er á. Flugvöllurinn er ríkisfyrirtæki sem liggur á verðmætu landi, sem hægt væri að nýta miklu betur. Hinsvegar liggur fyrir í aðalskipulagi Reykjavíkur að flugvöllurinn skuli víkja í áföngum á næstu árum. Það hefur legið fyrir frá árinu 2001 og óumdeilt er að borgin fer með skipulagsvaldið innan borgarmarka. (Því skal haldið til haga að Ögmundur hefur alltaf tekið fram að borgin ráði því sjálf hvernig hún skipuleggi landið. Það sé hennar réttur).

Ráðherrann segir líka: „Undarlegt þótti mér að frétta af vindmælingamönnum á Hólmsheiði á sama tíma og verið er að ræða uppbyggingu fyrir flugþjónustuna í Skerjafirði.“ Þessar vindmælingar eru verkefni ríkis og borgar, sem hófust í tengslum við viðamikla úttekt á framtíð innanlandsflugs sem samgönguráðuneytið og borgin létu gera á árunum 2005-2007. Furðulegt er að ráðherra hafi ekki vitað af þeim. Í vinnuhópnum voru meðal annarra Þorgeir Pálsson fyrrverandi flugmálastjóri og Helgi Hallgrímsson fyrrverandi vegamálastjóri, en hvorugur þeirra er þekktur fyrir að vera sérstakur andstæðingur flugvallarins í Vatnsmýri né landsbyggðarinnar. Niðurstaða hópsins var skýr og birtist strax á bls. 6 í skýrslunni:

Þjóðhagslegur ábati umfram þjóðhagslegan kostnað reiknast mikill ef flugstarfsemi er flutt úr Vatnsmýrinni.

Með öðrum orðum: Því fylgir ekki kostnaður að byggja nýjan flugvöll annarsstaðar, heldur græðum við á því. Af þeim kostum sem skoðaðir voru, kom Hólmsheiðin best út. Ýmsir sérfræðingar, verkfræðingar og fjármálafyrirtæki reiknuðu út kostnað, virði lands, byggingu nýs flugvallar og fleira og niðurstaðan varð sú að verðmæti lands í Vatnsmýrinnin væri miklu meira en kostnaður við að leggja nýjan flugvöll annarsstaðar og byggja upp alla aðstöðu við hann. Það er því mjög einkennilegt þegar Ögmundur Jónasson segir:

Spurt er hvort ég sem innanríkisráðherra sé því fylgjandi að flytja Reykjavíkurflugvöll upp á Hólmsheiði. Því er til að svara að því er ég ekki fylgjandi, hvorki sem innanríkisráherra né skattgreiðandi.

Nú átta ég mig ekki alveg á því hvernig skattgreiðandi Ögmundur er. En ef hann er skattgreiðandi eins og ég, sem vil lækka útgjöld ríkisins, gera sem mest verðmæti úr sameiginlegum eigum þjóðarinnar og borgarinnar og fara vel með almannafé; þá segir skýrslan honum svart á hvítu að hann ætti að styðja flutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni.