Ríkisstjórnin er dauð, lengi lifi ríkisstjórnin!

Það sem mér finnst best við nýju ríkisstjórnina er að ráðherrarnir eru allir nýir. Kynslóðin sem nú er smám saman að sópast út af sviðinu var orðin svo vígamóð, heiftúðug og langrækin að það stóð endurreisn Íslands fyrir þrifum. Þetta var áberandi í síðustu ríkisstjórn, þar sem ungu ráðherrarnir voru hættir að fela óþol sitt gagnvart þeim gamla stíl. Þetta var líka áberandi í kosningabaráttunni þar sem kjósendur höfðu það sterkt á tilfinningunni að allir leiðtogar stóru flokkanna 5 hefðu einlægan áhuga á því að gera Ísland betra. Og ótrúlegt en satt, þá var það ferskt viðhorf.

Á tíma síðustu ríkisstjórnar fannst mér ömurlegt að heyra stjórnarandstæðinga óska stjórninni alls ills, og þeir hinir sömu gátu ekki einu sinni glaðst þegar góðar fréttir bárust af ríkisfjármálum, minnkandi atvinnuleysi eða góðri afkomu fyrirtækja. Heiftin í garð pólitískra andstæðinga var sterkara afl en óskin um bættan hag landsmanna.

Ég vona að ríkisstjórnin sem tekur við völdum í dag sýni hógværð gagnvart valdinu sem hún fær og kappkosti reyndar að minnka það með því að leyfa fólki sem mest að ráða sér sjálft. Stjórnin þarf að bera virðingu fyrir því að tæpur helmingur þjóðarinnar kaus aðra flokka og að það er ekki bara hægt heldur nauðsynlegt að ná sátt um stóru málin. Ríkisstjórnin þarf að sýna að við höfum lært eitthvað af bóluhagkerfinu og hruninu. Ég vona líka að stjórnarandstaðan sýni vilja til samstarfs og beri virðingu fyrir því að þessi ríkisstjórn er rökrétt niðurstaða kosninganna.

Ef þetta gerist, gæti dagurinn í dag orðið upphafið að einhverju mjög góðu.