Málefnasamningar og handbolti

Á morgun verður kynntur málefnasamningur nýs meirihluta. Verðandi borgarstjóri Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur þó sagt að byggt verði á samkomulaginu sem við sjálfstæðismenn náðum við framsóknarmenn fyrir tveimur árum. Við Hanna sátum þá í hinni óformlegu nefnd sem gerði málefnasamninginn, ásamt þeim Óskari Bergssyni og Jakobi Hrafnssyni. Oddvitarnir tveir voru auðvitað ekki langt undan.

Þegar ég las frétt Morgunblaðsins um efndir þess samnings, fannst mér við geta nokkuð vel við unað. Meirihlutinn starfaði í 16 mánuði eða svo, en náði samt að koma ansi miklu í verk.

Í skipulagsmálum var til dæmis horfið frá uppboðsstefnu sem meginreglu við úthlutun lóða og ný og glæsileg hverfi voru skipulögð.

Í samgöngumálum var það loforð efnt að borgin myndi ákveða legu Sundabrautar strax á árinu 2006. Undirbúningur að lausn á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar fór strax af stað, og nú er starfandi samráðshópur með íbúum, Vegagerðinni og Reykjavíkurborg um bestu hugsanlegu lausn.

Í umhverfismálum gerðum við í raun miklu meira en að uppfylla loforðin úr málefnasamningnum. Grænu skrefin voru kynnt til sögunnar þar sem metnaðarfyllsta aðgerðaáætlun Reykjavíkur í umhverfismálum var kynnt.

Leikskólagjöld voru lækkuð um 25% og nú er aðeins greitt fyrir eitt barn úr systkinahópi á leikskóla. (Tjarnarkvartetinn tók þessa lækkun að vísu aðeins til baka með því að hækka gjöldin aftur). Loforð um Frístundakortin var einnig uppfyllt og rekstrargrundvöllur dagforeldra styrktur verulega.

Þegar allt er tekið saman er hafið yfir vafa að þessi meirihluti kom miklu í verk. Við vorum að sjálfsögðu ekki búin að klára allan listann þegar upp úr slitnaði, en komin vel á veg. Nú verður þráðurinn tekinn upp að nýju og vonandi verður síðari hálfleikur jafn gjöfull fyrir borgarbúa og sá fyrri.

Ég er uppnuminn yfir árangri handboltalandsliðsins. Það er á mörkunum að ég hafi taugar til að horfa á þessa leiki, en tíminn sem fer í að skoða myndir og lesa hvert einasta orð sem strákarnir segja eftir þessa leiki er að verða ansi langur. Heimspekifyrirlestrar Ólafs Stefánssonar eftir leikina eru síðan góður bónus. Svo held ég að Spánverjar séu búnir að vinna alveg nóg í hópíþróttum þetta árið. Þeir geta alveg verið sáttir við að spila um bronsið!