Síldarplanið

Ég var að fá Blað stéttarfélaganna inn um lúguna hjá mér og þar er athyglisverð grein eftir Ásgeir Jónsson hagfræðing og lektor. Þar segir hann meðal annars:

Á fyrri tíð gagnaðist lágt gengi krónunnar helst landsbyggðinni þar sem útflutningsframleiðslan, einkum sjávarútvegur, var staðsett. Að sama skapi vann veik króna gegn höfuðborgarsvæðinu þar sem þjónustugreinarnar voru. Vitaskuld hefur lágt gengi hvatt áfram mörg byggðarlög úti á landi, einkum þau sem hafa lífsviðurværi sitt af sjávarútvegi. En nú má svo heita að miðbær Reykjavíkur – póstnúmer 101 – sé farið að gegna sama hlutverki og síldarplönin á fyrri tíð þar sem fjöldi fólks vann og skóp mikil verðmæti á mjög afmörkuðu svæði. Á hinum Norðurlöndunum eru það hin dýnamísku borgarsvæði sem hafa tekið ákveðna forystu í þjónustuútflutningi af ýmsum toga, s.s. þekkingu, hönnun og hugviti. Framtíð Íslands veltur að miklu leyti á því hvort takist að byggja Reykjavík upp sem útflutningsklasa og nýta þann mannauð sem er samankominn í borginni til góðra verka.

Þetta eru sannindi sem nýja ríkisstjórnin ætti að hafa í huga. Fyrri ríkisstjórnir hafa því miður ekki áttað sig nógu vel á tækifærunum sem felast í öflugri höfuðborg og haft lítinn áhuga á því að búa til gott borgarsamfélag með þéttri byggð og mannvænlegu umhverfi. Þessi ríkisstjórn hefur tækifæri til að snúa við blaðinu í þessum efnum og hætta að tala niður „síldarplan“ landsins.