Landsímareitur, hótel, NASA

Deiliskipulag á hinum svokallaða Landsímareit var samþykkt í skipulagsráði í dag. Allir greiddu atkvæði með því, nema fulltrúi Vinstri grænna. Þegar þetta nýja deiliskipulag tekur gildi, fellur um leið úr gildi deiliskipulagið frá níunda áratuginum, sem er barn síns tíma og ekki gott. Samkvæmt því má til dæmis rífa gömlu húsin við suðurenda Ingólfstorgs. Nýja skipulagið er hinsvegar gott að mínu mati. Það hefur verið í vinnslu frá því á síðasta kjörtímabili og ýmsar hugmyndir verið viðraðar, meðal annars að færa gömlu húsin fram á Ingólfstorg. Að lokum var ákveðið að fara í stóra samkeppni um skipulag á reitnum og dómnefnd var sammála um að tillagan sem nýja deiliskipulagið byggir á væri best.

Nokkrir lykilþættir gera það að verkum að ég er hrifinn af þessu skipulagi. Einn þeirra er sá að byggt verður á tómu lóðinni á mörkum Kirkjustrætis og Thorvaldsenstrætis þar sem áður fyrr stóðu hús, en hefur verið notað sem bílastæði undanfarin ár. Sú viðbygging sést á myndinni hér að ofan. (Fölgræna húsið vinstra megin við Landsímahúsið gamla — myndina má stækka með því að smella á hana). Frá þessu sjónarhorni má líka sjá fallegu gluggana á jarðhæð Landsímahússins, en þeir gluggar færa nú mjög lítið líf út á Austurvöll, en í nýja skipulaginu er gert ráð fyrir því að þessi jarðhæð verði almenningsrými á borð við veitingahús eða eitthvað slíkt, og þá gæti orðið dásamlegt að sitja úti í morgunsólinni og drekka kaffi, á meðan góðu kaffihúsin við hinn endann eru ennþá í skugga.

Annað sem mér finnst gott, er að gömlu húsin tvö við suðurenda Ingólfstorgs, Hótel Vík og Aðalstræti 7 (rauða og gula húsið) fá að standa áfram á sínum stað. Ekkert verður gengið á Ingólfstorg. Á milli húsanna gömlu koma nýjar byggingar sem taka mikið tillit til sögu svæðisins og eru hvorki frekar á athygli né óhóflega háar. Vinstra megin við Hótel Vík koma líka nýjar byggingar í stað ljóta gluggalausa hússins sem hýsir Nasa og sá ágæti tónleikasalur verður endurbyggður í kjallara nýju bygginganna. Sérstaklega er tekið fram að ekki skuli vera hótelrekstur í húsunum sem snúa að Vallarstræti, en það er gatan sem liggur fyrir framan Hótel Vík og alla leið út í Pósthússtræti, framhjá Thorvaldsen og Kaffi París.

Eitt af því sumir hafa haft áhyggjur af er aukið skuggavarp á Austurvöll. En myndin hér til hliðar sýnir að skuggavarp af þessu nýja skipulagi er minna en skuggarnir af gamla skipulaginu. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt. Skuggavarp var líka skoðað á jafndægrum og vetrarsólstöðum og niðurstaðan er sú að skuggavarp eykst lítið sem ekki neitt við þessa tillögu.

Vallarstræti er frábær lítil gata í borginni, en er skuggaleg og leiðinleg núna. Í nýja skipulaginu er gert ráð fyrir þjónustu á jarðhæð nýju húsanna, sem munu varpa birtu út á götuna og bjóða fólk velkomið inn í verslun, þjónustu, kaffihús eða hvaðeina sem gæti dregið til sín viðskiptavini. Þannig verða tengslin á milli Ingólfstorgs og Austurvallar skemmtilegri en þau eru núna.

Hér má svo sjá loftmynd af öllum reitnum. Meðal þeirra sem hafa andmælt skipulaginu er Alþingi. Sumar athugasemdir þingsins eru réttmætar, eins og mikilvægi þess að Kirkjustrætið verði ekki háværri og leiðinlegri rútuumferð að bráð. Það þarf að tryggja að rúturnar fái stæði einhversstaðar utar, og gestir hótelsins gangi þá nokkra metra að og frá rútustæðunum. Alþingi hefur áður stungið upp á því að Kirkjustrætið verði hreinlega lokað fyrir almennri umferð, og borgin er hreint ekki afhuga slíkum hugmyndum. Mikilvægt er að tryggja Alþingi olnbogarými og að öll öryggissjónarmið verði uppfyllt. Sambúð Alþingis og Hótel Borgar hefur verið góð í gegnum tíðina og engin ástæða til að ætla að annað muni gilda um þetta nýja hótel sem fyrirhugað er á reitnum. Sjálft fyrirhugar Alþingi mikla uppbyggingu á sínum eigin reit, sem sjá má í fölbleikum lit á myndinni hér að ofan.

Ansi margir voru á móti þessu skipulagi. Sumir þeirra vildu að Nasa salurinn yrði friðaður, en ég tek undir það sem Pawel Bartoszek segir í grein í Fréttablaðinu í dag, að skemmtistaðir koma og fara og engin ástæða er til að óttast um íslenska tónlistarmenningu þótt Nasa færist niður um eina hæð eða hverfi alveg. Önnur mótbára var sú að vont væri að hafa hótel á þessum stað. Þeirri röksemd er ég líka ósammála. Af hverju telja menn að skrifstofur Landsbankans séu betri í þessum húsum en hótel? Skrifstofur loka oft kl. 5 og lítið líf er þar á kvöldin. Hvort skyldi vera betra að hafa hótel eða héraðsdóm við Lækjartorg? Hótel á þessum reit við Austurvöll og Víkurkirkjugarð mun að öllum líkindum færa meira líf inn á torgin, jarðhæðin er öllum opin eins og fyrr sagði og fólk mun streyma inn og út allan sólarhringinn í þeim tilgangi að njóta Reykjavíkur og skilja hér eftir dýrmætan gjaldeyri. Ef eigandi húsanna telur að það sé markaður fyrir enn eitt hótelið í miðbæ Reykjavíkur og er til í að leggja í miklar fjárfestingar til að gera það sem glæsilegast úr garði, þá skil ég ekki af hverju Reykjavíkurborg ætti að leggjast gegn því.

Ég hef þá einlægu trú að þetta nýja skipulag verði til sóma fyrir Reykjavík, leysi þennan reit úr læðingi og færi aukið líf í miðborgina.