Fjórflokkurinn aldrei óvinsælli

Þegar ég var að búa mig undir þáttinn minn á gamlársdag var ég að skoða fylgiskannanir – ég hafði áhuga á því að sjá hvernig fylgi flokkanna hafði þróast yfir árið. Þá rak ég augun í það hvað gamli fjórflokkurinn er í mikilli tilvistarkreppu.

Milli 1994 og september 2010 gerði Capacent Gallup 130 kannanir á fylgi flokkanna. Í 6 þeirra fór fylgið örlítið niður fyrir 90 (oftast 88% eða 89%) en í hinum 124 var fylgið yfir 90% og oftast nær yfir 95%. Þetta tímabil nær yfir uppganginn á tíunda áratuginum, góðærisárin og hrunið og nokkur ný framboð komu fram á þessum tíma. En ekkert virtist geta haft áhrif á vinsældir fjórflokksins. En í október 2010 breytist þetta með afgerandi hætti. Síðan þá hafa verið gerðar 39 kannanir og alltaf nema tvisvar hefur fjórflokkurinn verið undir 90%.

Í desember gerðist það svo að fjórflokkurinn náði nýjum lægðum, og mældist með 70,1%. Ég held ég geti fullyrt að aldrei í lýðveldissögunni hafi fjórflokkurinn mælst svo lágur. Það verður áhugavert að sjá hvort þetta sé tímabundin þróun, hvort hann sígi jafnvel undir 70% í næstu könnun eða hvort hann lifi af þessa stærstu kreppu sína í sögunni.

Ég gerði smá línurit sem sýnir þróunina vel, en gat ekki sett það hingað inn útaf einhverju tækniveseni, en ég setti það á Tumblr síðuna mína þar sem þið getið séð það.

Annað: Ef þið viljið skrá ykkur á póstlistann minn og fá stuttan, vikulegan tölvupóst, þá getið þið gert það hér.