Bjór og bönn

Bjórmenningin á Íslandi hefur batnað mjög á síðustu mánuðum. Fleiri og fleiri brugghús leggja metnað í framleiðsluna og bragðmiklir og góðir bjórar eins og IPA eru nú framleiddir hér en fyrir örfáum árum voru þeir ófáanlegir í landinu.

Mér hefur hinsvegar lengi fundist vanta hér bjóra með lága áfengisprósentu. Flestir íslensku bjóranna hafa verið 5% eða meira, sem er nokkuð stinnt. Í Edinborg er vinsælasti bjórinn Deuchars IPA, sem bæði krimmahöfundurinn Ian Rankin og sköpunarverk hans John Rebus hampa mjög. Sá bjór er 3,8%.

Víðast hvar á Norðurlöndunum er úrvalið af veikum bjórum nokkuð gott og ástæðan er vafalítið sú að slíka bjóra má selja í venjulegum verslunum. Eða til að orða það öðruvísi: Einokun ríkisins í smásölu áfengis nær ekki til drykkja sem eru undir ákveðinni áfengisprósentu. Hér á Íslandi eru mörkin við 2,25% en hjá öllum nágrönnum okkar (nema hinum íhaldssömu Færeyingum) eru mörkin umtalsvert hærri.

Rafn Steingrímsson tók saman á Facebook síðu sinni hvernig þessu er háttað í öðrum löndum.

Menn réttlæta oft einokunarverslunina Vínbúðina með því að benda á að þetta sé nú með svipuðum hætti á norðurlöndunum fyrir utan DK. En ef málið er skoðað kemur í ljós að Ísland er íhaldssamara en Færeyjar í þessum efnum:

Ísland: Einokun í smásölu á áfengi yfir 2,25% styrkleika

Færeyjar: Einokun í smásölu á áfengi yfir 2,8% styrkleika

Svíþjóð: Einokun í smásölu á áfengi yfir 3,5% styrkleika

Noregur: Einokun í smásölu á áfengi yfir 4,75% styrkleika

Finland: Einokun í smásölu á áfengi yfir 4,8% styrkleika

Ég held að það væri óvitlaust fyrsta skref til að minnka umsvif ríkisins á áfengismarkaði að hækka þessa prósentu hér á landi. Slíkt myndi líka efla hverfisverslun, en eins og ég hef áður skrifað um hefur ríkisvaldið reynt að drepa kaupmanninn á horninu og vegið að sjálfbærni hverfanna.