Sigrún, sannfæringin og stjórnarskráin

Það er rétt sem hin ágæta Sigrún Magnúsdóttir segir að þjóðaratkvæðagreiðslur eru oft „ráðgefandi“. Eftir sem áður þurfa stjórnmálamenn að gera það upp við samvisku sína hvernig þeir greiða atkvæði í tilteknu máli á þingi eða í sveitarstjórn. Hægt er ímynda sér þær aðstæður að stjórnmálamaður segi hreinlega fyrirfram að hann muni ekki fara eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu ef hún verður gegn því sem hann telur að sé best fyrir þjóðina. Eins og Egill bendir á, á þetta þó ekki við um þjóðaratkvæðagreiðslur í tengslum við synjun forseta á staðfestingu laga. Þá falla lögin sjálfkrafa úr gildi ef þau eru felld í atkvæðagreiðslunni.

Mér finnst hinsvegar einkennilegt að halda því fram í þessu samhengi, eins og Sigrún gerir, að stjórnmálamenn séu frekar bundnir af landsfundum sínum eða flokksþingum. Hvernig má það vera að vilji þjóðarinnar sé ráðgefandi en vilji flokksþings „æðsta loforð“ alþingismanna, svo notuð séu hennar orð?

Staða landsfunda og flokksþinga er reyndar nokkuð sérstök. Fæstir landsmenn sækja landsfundi og ég er ekki viss um að út á við virki þeir sem þær þær lýðræðishátíðir sem dyggasta flokksfólkið heldur. Það má til dæmis deila um hversu heilbrigt það er fyrir lýðræðið að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar mæti á flokksþing og „fái þar línuna“. Eiga þingmenn að skipta um skoðun á flokksþinginu ef ‘línan’ fer ekki saman við skoðun þeirra? Ganga út með aðra skoðun en þeir gengu inn?

Í stjórnarskrá Íslands er tekið á þessu máli. Þar segir í 48. grein:

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Sveitarstjórnir um allt land hafa litið svo á að þetta ákvæði eigi einnig við um þeirra kjörnu fulltrúa. Með öðrum orðum: Stjórnmálamenn eiga að fylgja sannfæringu sinni, ekki ályktunum flokksþinga.  Þetta ákvæði er ágætlega útskýrt hér hjá Páli Hreinssyni.

Eitt lítið dæmi um þetta: Þegar ég bauð mig fram í prófkjöri haustið 2005 gegn Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni var það eitt af stefnumálum mínum að í Vatnsmýrinni ætti að rísa blönduð byggð. Það varð úr að bæði í borgarstjórnarkosningunum árið 2006 og 2010 var D-listinn með það á stefnuskrá sinni að byggja í Vatnsmýrinni. Á þessum tíma var í gildi landsfundarályktun frá október 2005 þar sem sagði að í „ljósi mikillar umræðu um framtíð Vatnsmýrarsvæðisins ályktar landsfundur að hraðað verði flugtæknilegri, fjárhagslegri, öryggislegri og hagsmunalegri úttekt á því hvort færa eigi miðstöð innanlandsflugs úr Vatnsýrinni og byggja upp flugvöll á stór-höfuðborgarsvæðinu“. Orðalagið „stór-höfuðborgarsvæðið“ var tilkomið vegna þess að sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ vildu að Keflavíkurflugvöllur kæmi til greina sem framtíðarstaðsetning innanlandsflugs.

Eftir borgarstjórnarkosningarnar 2010 ályktaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins að innanlandsflugið skyldi vera í Vatnsmýri og hvergi annarsstaðar. Stór hluti fundarmanna, þar með taldir flestir borgarfulltrúar flokksins, voru á móti þessari ályktun en urðu undir. Þá er spurningin: Áttu borgarfulltrúar flokksins að skipta um skoðun vegna þessa „æðsta loforðs“ flokksins, eða áttu þeir að fylgja sannfæringu sinni um það hvað væri rétt fyrir Reykjavík? Átti borgarstjórnarflokkurinn að lýsa því yfir í borgarstjórn að breyting hefði orðið á skoðun hans varðandi flugvöllinn og að hann stæði ekki lengur við kosningaloforðin frá 2006 og 2010? Ljóst er að fjölmargir dyggir fótgönguliðar flokksins gera kröfu um að allir kjörnir þing- og sveitarstjórnarmenn fylgi ályktunum landsfundar. En hver væri trúverðugleiki stjórnmálamanna sem reglulega gæfu innri sannfæringu upp á bátinn og marseruðu út af flokksþingum með hverja þá skoðun í farteskinu sem þeim væri sagt að hafa? Þá fengjum við tvenns konar stjórnmálamenn: Vindhana sem fylgdu öllum landsfundarályktunum sama hver þeirra sannfæring er og hinna sem ekki hefðu neinar hugsjónir eða skoðanir sem þvælast fyrir  landsfundarályktunum.

Ég er því ósammála því að æðstu loforð hvers stjórnmálamanns séu þau sem landsfundur stjórnmálaflokks ályktar um. Æðsta loforð hvers stjórnmálamanns er að fylgja sannfæringu sinni og standa við loforðið sem hann hefur gefið borgarbúum, eða landsmönnum, með málflutningi sínum.

P.s. Ég sendi fréttabréf um það bil einu sinni í viku með ýmiskonar efni. Öllum er frjálst að skrá sig á póstlistann, og það er hægt að gera hér.