Nýi Sjálfstæðisflokkurinn

Kjarninn er að skrifa um væringarnar á hægri vængnum í íslenskri pólitík. Það er allt saman áhugavert og maður verður var við heilmikinn áhuga á þessu nýja framboði – bæði á hægri og vinstri vængnum, þótt ólíkar ástæður liggi að baki þeim áhuga.

Ég held að mesta áhyggjuefnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn sé ekki það að missa ESB-sinnaða kjósendur flokksins yfir til nýs flokks. Þeir eru ekkert það margir. Áhyggjuefnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að fólk sem skilgreinir sig til hægri í stjórnmálum muni kjósa nýja-sjálfstæðisflokkinn þrátt fyrir Evrópustefnu hans.

Aðeins 56% þjóðarinnar skilgreinir sig sem „alfarið hlynt/mjög hlynt“ aðild að ESB eða „alfarið andsnúin/mjög andsnúin“ aðild að ESB.[Hér stóð upphaflega 66% sem var klaufavilla]

Hin 44% segjast annað hvort vera „hlutlaus“ eða „frekar hlynt“ eða „frekar andsnúin“ aðild. Þessi tæpi helmingur þjóðarinnar er semsagt ekki mjög harður í afstöðunni til ESB og telur sennilega að aðrir hlutir skipti meira máli. Þar liggja möguleikar nýs flokks á hægri vængnum.

[Ég er með vikulegt fréttabréf, þeir sem vilja skrá sig á það geta gert það hér.]