Lesmál í borginni

Eitt af námskeiðunum í náminu mínu heitir „Text and the City“ og fjallar um samspil texta og borgarlífs. Þar er komið víða við, frá veggjakroti til lesmáls í arkitektúr.

Að mínu mati hefur texti, og reyndar upplýsingar almennt, verið af of skornum skammti í Reykjavík. Við getum frætt borgarbúa miklu betur um sögu borgarinnar með fallegum upplýsingaskiltum, komið fréttum af veðri og loftþrýstingi fyrir á sniðugum stöðum og notað lesmál meira í byggingum, svo ég taki dæmi. Söguþjóðin á að vera stolt af bókunum sínum og borgurum sem allir eru fluglæsir (sem er merkilegt í samanburði við aðrar þjóðir). Það er ánægjuleg þróun að vinningstillagan að nýrri Árnastofnun við Suðurgötu, gerir ráð fyrir að utan á byggingunni verði textabrot úr handritunum, sem geymd verða þar innandyra.

Önnur birtingarmynd lesmáls í borginni er veggjakrot. Það hefur verið rannsakað ótæpilega í borgarvísindum og sýnist sitt hverjum, rétt eins og í umræðunni á Íslandi. Allir eru þó sammála um eitt, og það er að krassið (á ensku kallað „tag“) sem t.d. lagði undir sig Reykjavík síðasta áratuginn, er engum til sóma og ber að þrífa þegar í stað á kostnað krassaranna. Undir það tekur líka áhugafólk um vel unnið veggjakrot.

Álitamálin um hvað er ómerkilegt krass og hvað er snjallt veggjakrot hrannast hinsvegar upp. Listamenn eins og Banksy, hafa til dæmis sett veggjakrot í nýtt samhengi, en myndir hans eru orðnar sérstakt aðdráttarafl fyrir ferðamenn og borgarbúa, enda óvenju snjallar og sniðugar:

Staðreyndin er sú að fæstir vilja þrífa þessar myndir og borgaryfirvöld hafa sumstaðar gert í því að vernda þær fyrir öðru kroti! Síðan ljósmyndin sem ég nota hér af börnunum við Tesco flaggið var tekin, hefur eigandi hússins sett plexigler yfir „listaverkið“, svo það verði ekki skemmt, enda eykur verkið aðsókn í búðirnar í nágrenninu. (Ég mæli með banksy.co.uk til að sjá fleiri myndir).

Yfirvöld í Bretlandi hafa hinsvegar orðið að viðurkenna, að þótt verk Banksy séu vinsæl, er ekki eðlismunur á þeim og öðru ómerkilegra veggjakroti. Sömu yfirvöld hafa hinsvegar lent í vandræðum með listamenn sem stunda „öfugt veggjakrot“. Það er að segja, í stað þess að krota á veggina, þrífa þeir ákveðið mynstur, þannig að útkoman verður t.d. sú sem sést hérna að neðan. Þetta skapar allskonar skemmtilegar vangaveltur. Víða eru krotarar sem nást til dæmis látnir þrífa það sem þeir krotuðu. Í tilvikum veggjakrots á röngunni, ættu þeir þá að skíta vegginn út á nýjan leik? Eða ættu þeir að þrífa allan vegginn, nokkuð sem ætti að vera í verkahring eiganda bygginganna.

Sumir þessara listamanna hafa tekið undir með yfirvöldum um að óvandað krass sé lýti á borginni. Ýmsar borgir hafa hinsvegar reynt að skilja á milli þess sem kalla má vandaðs veggjakrots og krass, og reynt að fá fyrrnefnda hópinn í lið með sér við að halda borginni hreinni. Ýmis fyrirtæki og stofnanir hafa líka fengið vandaða veggjakrotara með sér í lið og ráðið þá til að gera auglýsingar og skrifa texta í borgarumhverfið, sem ekki skemmir. Þannig réð lögreglan í Lundúnum nokkra veggjakrotara til að hanna auglýsingaherferð til að hvetja þá sem ættu skotvopn, til að skila þeim til lögreglu, eða lenda í fangelsi ella. Þessi herferð fór fram á gangstéttum Lundúnaborgar, þar sem skilaboðin höfðu verið skrifuð með því að þrífa skítinn. Þekkt stórfyrirtæki hafa líka tekið upp þessa leið til að koma skilaboðum á framfæri. Borgaryfirvöld í Bretlandi hafa ekki tekið afgerandi afstöðu til þessa auglýsingamiðils, en miðað við vöxtin í þessum skæru-auglýsingahernaði, hljóta eigendur gangstéttarinnar að þurfa að velta fyrir sér hvort setji beri einhver mörk, og þá hver. Enn sem komið er, finnst flestum þetta frekar fyndin og skemmtileg nýung, auk þess sem hún er umhverfisvæn og skemmir ekkert. Ef borgaryfirvöldum mislíkar þetta, er besta svarið þeirra sennilega að halda borgarumhverfinu hreinu.