G-blettur Steingríms J.

Hann var snöggur bletturinn sem Kolbrún Halldórsdóttir kom við á flokknum sínum í gær. Hún kom nefnilega við Græna blettinn, G-ið í nafni VG. Hann hefur jafnan verið falinn vandlega fyrir kosningar, sem hlýtur að vera óþolandi fyrir umhverfisráðherra sem starfar bara í örfáar vikur fyrir kosningar. Kolbrún og umhverfismálin hafa enda ekki sést frá því minnihlutastjórnin tók við fyrir þremur mánuðum. Þar til í gær þegar Kolbrún kvaddi sér hljóðs vegna olíuleitarinnar á drekasvæðinu.

Samkvæmt Vísi.is var þetta svona: „[Kolbrún] minnir á að Vinstri grænir studdu ekki málið á Alþingi fyrir jól enda sé olíuvinnsla í andstöðu við hugmyndafræði flokksins um sjálfbæra þróun, sjálfbæra atvinnustefnu og sjálfbæra orkustefnu. Aðalatriðið sé þó skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

“Er þetta eitthvað sem samrýmist þeim skuldbindingum sem við erum þegar búin að undirgangast í umhverfismálum? Og þar staldra ég við. Mitt svar við þeirri spurningu er nei,” segir Kolbrún.“

Þetta er alveg hárrétt hjá Kolbrúnu. Vinstri grænir hafa lagst eindregið gegn öllum hugmyndum um olíuvinnslu, af umhverfisástæðum. En nú bregður svo við að formaður flokksins sendir tilkynningu á alla fjölmiðla og segir að Kolbrún fari rangt með. Vinstri grænir séu einmitt MEÐ því að Íslendingar leiti að olíu, í þeirri von að við getum orðið olíuríki. Þetta var athyglisverð yfirlýsing hjá Steingrími og í mikilli andstöðu við umhverfissjónarmið.

Ég hélt að VG hefðu miklar áhyggjur af hlýnun jarðar. Og reyndar Samfylkingin líka á hátíðisdögum. Hjörleifur Guttormsson sagði í Morgunblaðinu á dögunum:  „Stærsta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir tengist loftslagsbreytingum í kjölfar sívaxandi framleiðslu af jarðefnaeldsneyti, olíu, jarðgasi og kolum.“

Með öðrum orðum, þeir sem raunverulega telja að jörðin sé að hlýna vegna brennslu olíu, setja sig í mjög einkennilega stöðu með því að berjast fyrir því að Ísland bori eftir meiri olíu til að brenna, og hiti jörðina því enn meira. Hvaða afleiðingar ætli það hefði fyrir ferðamannaiðnaðinn sem VG héldu fram að gæti hrunið vegna Kárahnjúka, sem þó stuðla að minni brennslu jarðefnaeldsneytis, því ella væri álið brætt í koladrifnum verksmiðjum. Á þessa þversögn var Kolbrún að benda.

En þá bregður svo við að G-ið í VG hverfur, og eftir stendur bara: Vinstri hreyfingin.

Þetta kemur okkur ekki á óvart sem höfum starfað með Vinstrihreyfingunni í Reykjavík. Á valdatíma þeirra í borginni hrundu almenningssamgöngur, bílaeign á íbúa fór frá því að vera á pari við Kaupmannahöfn í það að vera á pari við Houston, gengið var á grænu svæðin og í stað þess að þétta byggðina varð hún dreifðari.

Því Vinstrihreyfingin er ekki græn þegar á reynir.

Reyndar er það svo að hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né Steingrímur J. vita neitt um umhverfismál eða nýjar lausnir í samgöngumálum, svo ég nefni tvö áhugamál mín. Steingrímur er jarðgangnahefill, þótt flokkurinn hans sé á móti 100 sinnum ódýrari stokkum á höfuðborgarsvæðinu. Samt eru jarðgöngin úti á landi fyrir bíla (sem VG segist vera á móti), en stokkar á höfuðborgarsvæðinu fyrir fólkið ofanjarðar, gangandi eða hjólandi. En hugsunin um Jóhönnu eða Steingrím á reiðhjólum er reyndar beinlínis fyndin.

Því ekki eru Starbucks sósíalistarnir í Samfylkingunni betri en Vinstrihreyfingin. Dreymir öll um að komast til Brussel. Hafa alltaf það sem betur hljómar, einsog sést best á því að þau voru áköfustu stuðningsmenn útrásarinnar, en eru núna full hneykslan yfir því máli öllu. Hömuðust í þessum mótmælum fyrir utan Alþingi í janúar, en reyna að kæfa öll mótmæli núna, þótt ástandið hafi bara versnað eftir að þau tóku við. Heimtuðu endurnýjun en bjóða uppá endurvinnslu ráðherranna sem voru í hrun-dansinum. Og þegar kemur að umhverfismálum veit meira að segja Vinstrihreyfingin að þar ræður vindhanapólitíkin líka. Ögmundur Jónasson skrifaði fyrir ári 6 greina flokk í Fréttablaðið um það sem hann kallaði „svikasögu Samfylkingarinnar í umhverfismálum“. Að lokum er svo rétt að minna á að Samfylkingin vildi afhenda auðmönnum orkulindir þjóðarinnar undir borðið. Greiddu því atkvæði í stjórn Orkuveitunnar og efsti maður í öðru Reykjavíkurkjördæmanna, sagði mig og félaga mína í borgarstjórnarflokknum allt að því landráðamenn og alveg örugglega fábjána að hafa stoppað REI, enda hefði félagið „búið til peninga úr engu”, einsog hann orðaði það. Og nú hefur þessi flokkur búið til 30% fylgi úr engu. Örlög þeirrar bólu verða þau sömu og útrásarbólunnar sem Össur var svo hrifinn af, með álíka slæmum afleiðingum fyrir þjóðina.