Leikur og loftgæði

Réttindamálum Ólympíuleikanna er þannig háttað að menn geta ekki horft á leikana í gegnum ruv.is, ef þeir eru staddir í útlöndum. Ég gat því ekki horft í morgun, sem var auðvitað meiriháttar áfall. Úrslitin í leiknum voru það hinsvegar ekkert, fannst mér. Svona leikir geta dottið hvoru megin sem er og þetta var ekki okkar dagur. En þetta voru hinsvegar okkar Ólympíuleikar í handboltanum, maður lifandi. Fyrir utan leikina, var alveg sérstök upplifun að fylgjast með liðinu í allri framkomu þess utan vallar. Ólafur Stefánsson hefur kennt fleirum að hugsa jákvætt á síðustu dögum en allir sjálfshjálparfyrirlestrar sem haldnir hafa verið á Íslandi, samanlagt. Ég reyni núna að senda jákvæða strauma frá mér í allar áttir. Ef þú smælar framan í heiminn, einsog Megas sagði löngu áður en einhverjir sérfræðingar græddu milljarða á því að segja það sama og selja undir merkjum „The Secret“. Og Bítlarnir orðuðu þetta líka ágætlega í síðasta laginu sínu: „And in the end, the love you take is equal to the love you make.“ Meira að segja Lennon viðurkenndi að þetta hefði verið flott lína hjá McCartney.

Nýi málefnasamningurinn í borgarstjórn Reykjavíkur er að mörgu leyti mjög sterkt plagg. Ég tek sem dæmi loforð um að lögð verði fram loftslagsáætlun í Reykjavík innan árs. Slíka loftslagsáætlun vantar í Reykjavík, því ef við setjum okkur ekki markmið um það hversu hreint við stefnum að því að hafa loftið, sígur áfram á ógæfuhliðina. Loftgæði varða bæði svifryk og útblástur gróðurhúsalofttegunda, sem mikilvægt er að kortleggja og taka ákvörðun um hvort og hvernig menn vilja minnka. Fjármálaráðuneytið hefur kynnt hugmyndir að nýrri skatlagningu á bíla, útfrá því hversu mikið þeir menga, án þess að heildartekjur ríkisins minnki. Ríkisstjórnin hefur enda sett sér háleit markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en margt bendir til þess að þau markmið náist ekki að öllu óbreyttu. Forsætisráðherra sýnir þessum málum æ meiri áhuga og skilning og hefur hvatt fólk til að taka skynsamlegar ákvarðanir af sjálfsdáðum.

Borgir og bæir geta auðvitað gert ýmislegt til þess að sporna við útblæstri gróðurhúsalofttegunda, hafi þær áhuga á því. Á árunum 1995-2006 jókst losun gróðurhúsalofttegunda  í Reykjavík um næstum 50%, fór úr 167 þúsund tonnum í meira en 240 þúsund tonn. Þetta gerðist auðvitað af því bílaeign jókst mjög mikið á tímabilinu. Markmið okkar sem nú höldum um stjórnartaumana, er að reyna hægja á þessari þróun með því að bjóða fólki upp á aðra góða valkosti. Það þýðir ekki að andskotast út í bílinn, en bjóða síðan upp á lélegar almenningssamgöngur. Þess vegna ber ekki að gera lítið úr því markmiði sem birtist í málefnasamningnum um að hlutur vistvænna samgöngumáta verði aukinn, og jafnframt verði gerð loftslagsáætlun fyrir borgina. Þarna er að mínu mati um mjög merkilegar yfirlýsingar að ræða, sem munu skila okkur betri borg.