Um holt og hóla

Á morgun hefst átakið Hjólað í vinnuna, sem hefur slegið undanfarin ár. Það er full ástæða til að hvetja alla til að taka þátt í því.

Reykjavík hefur alla burði til að verða góð hjólreiðaborg. Með Grænu skrefunum var hrundið af stað nýju átaki til að bæta aðstæður hjólreiðamanna í borginni. Megnið af því sem þar var lofað er þegar komið í framkvæmd. Þannig hafa til dæmis verið settir upp hjólavísar á nokkrum stöðum í borginni og unnið er að því að leggja sérstakan hjólreiðastíg meðfram göngustígnum sem liggur frá Ægisíðu upp í Elliðaárdal. Það er gert bæði til að auka öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda og einnig er hjólreiðastígurinn nokkru styttri en göngustígurinn, þar sem markmiðið er fyrst og fremst að þeir sem hjóla komist hratt og örugglega á milli staða. Gangandi vegfarendur krækja hinsvegar til dæmis fyrir húsin í Skerjafirðinum og geta þá notið útsýnis og fegurðar við fjöruna.

Þá má einnig nefna að stokkalausnin á Miklubraut, sem kynnt var fyrr í vetur og ég fjallaði um hér, gerir ráð fyrir breiðum og góðum hjólreiðastígum ofan á stokknum. Þar með verða komnar tvær samgönguæðar á vestur-austur ásnum, en bæði Suðurgatan og Langahlíðin eru tengingar milli norðurs og suðurs.

Ég hef áður varpað fram þeirri hugmynd minni að Ósabrautin sem gert er ráð fyrir í aðalskipulagi, verði aðeins fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Ósabrautin mun liggja þvert yfir Elliðaárósa og mun þannig tengja Grafarvoginn við Vogahverfið. Þar með væri komin framúrskarandi hjólreiðatenging fyrir Grafarvogsbúa sem eiga erindi vestur eftir og öfugt.

Ýmsar fleiri hugmyndir eru á teikniborðinu, en mikilvægast er að í hvert einasta sinn sem gata er hönnuð, eða ný hverfi undirbúin, þá sé gert ráð fyrir hjólreiðafólki. Við þurfum að þétta byggðina, því rannsóknir (og heilbrigð skynsemi) sýna að því fjær vinnustað sem fólk býr, því ólíklegra er að það hjóli þangað eða gangi.

Ég vona að sem flestir taki þátt í Hjólað í vinnuna og uppgötvi þennan frábæra ferðamáta.