2. sætið í 2. sinn

Jóhanna Guðrún stóð sig framúrskarandi vel á sviðinu í Moskvu í gær og ég sendi henni og öðrum aðstandendum lagsins mínar bestu hamingjuóskir með árangurinn. Breski þulurinn, Graham Norton, var mjög hrifinn af laginu og hrósaði Jóhönnu Guðrúnu. Hann sagði hinsvegar að vegna bankahrunsins hefði íslenska þjóðin ekki haft efni á að kaupa handa henni kjól, heldur hefði móðir hennar fundið brúðarmeyjarkjól úr brúðkaupinu sínu og lánað henni. Flestir brandaranna hans voru skárri en þessi. Enda voru bæði búningar og sviðsmynd lagsins okkar til fyrirmyndar og greinilega til þess ætlaðir að skyggja ekki á söng Jóhönnu Guðrúnar og útgeislun, sem fékk að njóta sín og náði greinilega til allra horna Evrópu.

Fyrir 10 árum fór ég í fyrsta sinn í Evróvision, og lýsti þá keppninni í Jerúsalem þegar Selma varð í 2. sæti. Það var dálítið ólíkt gærkvöldinu, því Selma var allan tímann í baráttunni um að vinna keppnina en í gær varð snemma ljóst hver yrði sigurvegari, þannig að spennan snérist öll um það hver yrði í 2. sæti og þar stóðum við uppi sem sigurvegarar. Árangurinn nú er einnig ólíkur 1999 að því leyti að niðurstaða gærkvöldsins fór fram úr björtustu vonum og spám, en Selmu hafði jafnan verið spáð einu af efstu sætunum. Það var dálítið fyndið að þegar Jóhanna Guðrún var að stíga á svið sagði Graham Norton að þetta árið vildu Íslendingar standa sig vel, en bara ekki sigra! Þar rataðist kjöftugum satt orð á munn.

Jóhanna Guðrún er nú komin í sögubækur Evróvision og verður þar um langa framtíð. Hún áttar sig kannski ekki á því strax, en héðan í frá munu hundruð eða þúsundir ákafra Evróvision aðdáenda fylgjast með ferli hennar og sýna öllu því mikinn áhuga sem hún gerir. Henni verður væntanlega boðið á hátíðir í Evrópu reglulega til að syngja lagið sitt, rétt eins og Selma hefur gert þótt hún hafi ekki komist yfir að gera allt það sem til boða stendur.

Gærkvöldið var frumraun Grahams Nortons sem aðalkynnir BBC, eftir að Terry Wogan dró sig í hlé. Ráð Wogans til Nortons var að byrja ekki að drekka fyrr en í 5. lagi, en Wogan drakk mikinn Baileys á klaka þegar hann kynnti keppnina (ég fór einu sinni í miðju lagi og heilsaði upp á hann og sannreyndi það). Hvort sem Norton hefur farið að ráði Wogan eða ekki, óx honum ásmegin eftir því sem leið á keppnina. Ein fyndnasta athugasemd kvöldsins hjá honum var þegar Chiara hin maltneska steig á svið. Hún er, einsog Evróvision áhorfendur sáu, aðeins yfir kjörþingd. Norton sagði að hún væri ákaflega elskuleg stúlka og bætti við: „She’s never met a Malteser she didn’t like.“