Borgir og kreppur

Eins og fyrri kreppur hófst þessi kreppa í borgum heimsins. Fjármálamiðstöðvarnar eru þar, þar lifa menn hátt og blása bólurnar upp. En eins ósanngjarnt og það kann að hljóma, eru það sjaldnast þessar sömu borgir sem verst koma út úr kreppum. New York og Lundúnir styrktu stöðu sína í kreppunni miklu við upphaf þessarar aldar, en borgir með fábreyttari efnahag komu verr út. Svona var þetta um allan heim, ekki síst á Íslandi. Þéttbýlissvæðin styrkjast í kreppum, því þangað leitar fólk eftir markaði til að selja vörur sínar, hugmyndir eða hæfileika. Helmingur mannkyns býr í borgum og straumurinn þangað þyngist með hverju árinu. Við upphaf síðust aldar bjó 10% mannkyns í borgum. Árið 2007 var tímamótaár, því í fyrsta skipti í sögu heimsins bjuggu þá fleiri í borgum en dreifbýli og árið 2050 er talið að 75% mannkyns muni búa í borgum.

Mynd: Giesenbauer

Reykjavík gæti vaxið hraðar vegna kreppunnar. ©Giesenbauer

Í borgum verða 2/3 auðæfa heimsins til og þótt 5 af hverjum 10 íbúum veraldar búi ennþá utan borga, fæðast 9 af hverjum 10 hugmyndum sem fá einkaleyfaskráningu í borgum.

Kreppan mun ekki breyta þessu. Miklu líklegra er að hún flýti enn þessari þróun.

Staðreyndin er sú að góðærið hafði ýmsar slæmar afleiðingar fyrir borgir. Efnahagslegur vöxtur hélst í hendur við efnislegan vöxt. Borgir og bílar þöndust út. Froðufjármagnið sem fólk hafði aðgang að varð til þess að lang flestir stækkuðu við sig og venjulegt fólk flutti í hús sem áður hæfðu aðeins útgerðakóngum og forstjórum. Bæjarfélög með litla eða gamaldags sýn í skipulagsmálum sáu í þessu tækifæri og byggðu vond úthverfi þar sem eingöngu voru 300 fermetra einbýlishús, engin þjónusta, ekkert samfélag, engar almenningssamgöngur en næg bílastæði. Enda einn bíll á mann á flestum heimilum. Fólk þekkti ekki nágranna sína, en kannski bílana þeirra.

Þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við stjórnartaumunum í Reykjavík árið 2006 hafði Samfylkingin gert áætlanir um að reisa hverfi fyrir 25 þúsund manns í Úlfarsfelli. Það er eins og heildarfjöldinn í Kópavogi. Nýi meirihlutinn minnkaði þessa byggð strax um helming og kannski meira síðar, en leggur áherslu á að búa til fallegt og fjölskylduvænt umhverfi fyrir íbúana. Reykjavík á feikilega falleg og góð úthverfi, sem þarf að halda við og hlúa að. En afleiðingar kreppunnar verða meðal annars þær að krafa um annarskonar húsnæði eykst.

Hagkvæmt húsnæði, styttri vegalengdir, fjölbreytilegri samgöngur og falleg opin svæði verða að mínu mati óskir borgarbúa næstu ára og áratuga. Það kostar milljón krónur á ári að reka meðalstóran bíl (fyrir utan afborganirnar). Fá heimili munu hafa efni á slíkum lúxus fyrir allt heimilisfólk á bílprófsaldri. Fleiri munu því treysta á góðar almenningssamgöngur eða göngu- og hjólreiðastíga. Fólk mun einnig kunna betur að meta þau gæði borga sem ekki kosta neitt. Nauthólsvíkin, Heiðmörk, litlir garðar og torg og strandlengjan eru perlur í landi Reykjavíkur, sem mörgum yfirsást á meðan stuðið var sem mest inni í jeppunum.

Þessi þróun verður líka góð fyrir borgirnar sjálfar. Það er miklu hagkvæmara að byggja þétt og ýmis þjónusta við borgarbúa verður öruggari og ódýrari í þéttari byggð. Þétt byggð er líka umhverfisvænni en dreifð og öfugt við það sem margir halda verður minna um umferðarteppur eftir því sem Reykjavík verður þéttari. Í Reykjavík myndast teppurnar ekki þar sem þéttast er byggt, heldur á stóru umferðaræðunum þegar við reynum að koma meirihluta vinnandi fólks til og frá vinnu á sama tíma. Ef fleiri byggju nálægt þungamiðju atvinnulífsins (sem er vestan Kringlumýrarbrautar), væri vandamálið minna.

Sífellt breiðari umferðaræðar leysa ekki vandann.

Sífellt breiðari umferðaræðar leysa ekki vandann. Gott skipulag gerir það

Á næstu 40 árum mun Reykvíkingum fjölga um 35 þúsund manns samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar. Þeir sem mótmæla byggð í Vatnsmýri og Örfirisey, eru að leggja til þetta fólk muni allt búa austan við þá byggð sem fyrir er í Reykjavík. Það mun kosta mikla peninga, mikla mengun og mikla umferðarhnúta, sem verða ekki aðeins slæmir fyrir þessa nýju íbúa borgarinnar, heldur ekki síður fyrir öll þau hverfi sem verða gegnumaksturshverfi. Peningum yrði sóað, sem með skynsamlegra skipulagi væri hægt að nýta til uppbyggilegri hluta. Kreppan mun vonandi kenna okkur að slík óráðsía er hluti af fortíðinni. Framtíðin er þéttari, umhverfisvænni og hagkvæmari borg.