Göngugötur í miðbænum

Þegar Austurstræti var gert að umferðargötu með bílastæðum, var það vegna óska frá kaupmönnum í götunni. Þeir voru þá nokkuð margir. Í fljótu bragði man ég eftir framköllunarstofunni á horninu, Karnabæ, plötubúðinni (sem Steinar rak einhverntíma), þarna var hárgreiðslustofa, Sigfús Eymundsson og Reykjavíkurapótek. Aðeins Eymundsson er eftir. Annað húsnæði hefur verið tekið undir skemmtistaði sem eru opnir tvö kvöld í viku eftir miðnætti, þótt Hressó og nýi staðurinn við hlið hans sé að vísu opnir á daginn líka. Það er erfitt að gagnrýna þá sem tóku ákvörðun að hleypa bílaumferð á þennan hluta Austurstrætis. Kaupmenn stóðu á því fastar en fótunum, að það myndi glæða viðskiptin og án viðskipta er miðbærinn ekki neitt. Ég held hinsvegar að það sé fullreynt með þessa tilraun. Bílaumferð í Austurstræti virðist ekki glæða viðskiptin þar sérstaklega mikið. Hvað varð um yður Austurstrætisdætur, kvað Tómas og spurningin á vel við.

Austurstræti í kringum 1974

Ljóð Tómasar og gamlar myndir eru hvorttveggja til vitnis um það mikla líf sem var í Austurstrætinu. Þar voru einnig götusalar sem seldu föt, harðfisk, blóm, pylsur eða hvaðeina. „Austurstræti, ys og læti, fólk á hlaupum í innikaupum“, kvað annað skáld, nánar tiltekið Laddi. En fljótlega eftir að bílaumferðinni var hleypt á, fækkaði fólkinu á hlaupum í innkaupum.

Færum okkur yfir á Austurvöll. Þar skapast einstök stemning á góðviðrisdögum í Reykjavík. Hluti af Grænu skrefunum er að loka Pósthússtrætinu á slíkum dögum, til að auka plássið sem fólk hefur til að njóta veðurblíðunnar. Kaffihúsin við Vallarstræti (Kaffi París, Thorvaldsen…) setja borð og stóla út og þar myndast stemning sem menn líkja helst við einhverjar erlendar borgir. Frábært bæði fyrir neytendur og kaffihúsin.

Allir léttir fyrir utan Kaffi París

Allir léttir fyrir utan Kaffi París

Svona var þetta hinsvegar ekki alltaf. Það sem skapaði forsendur fyrir kaffihúsalífinu í Vallarstræti var sú aðgerð borgaryfirvalda að loka fyrir bílaumferð í Vallarstræti og Thorvaldsensstræti. Það var gert í borgarstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, skömmu áður en r-listinn tók við. Fram að því höfðu þessar götur verið venjulegar bílagötur og því engin möguleiki fyrir útikaffihús til að blómstra og stemningin á Austurvelli hreint ekki sú sama. Þessi gamla mynd frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur sýnir hvernig þetta leit út:

Það er líka hægt að taka dæmi frá öðrum borgum. Flestir hafa komið til Kaupmannahafnar, en aðeins þeir sem eldri eru muna að bæði Strikið og Nýhöfn voru umferðargötur fram á sjöunda áratuginn. Þegar Jahn Gehl og fleiri borgarsmiðir fóru að tala um að breyta þessum götum í göngugötur með útikaffihúsum fengu þeir jafnan svarið: „Við búum ekki við miðjarðarhafið.“ En götunum var samt breytt og flestir þekkja útkomuna. Viðskipti blómstra, útikaffihús eru á hverju horni og fólk getur gengið um bæinn sinn afslappað og án hávaða eða annarrar truflunar frá bílum. Þeim er fundinn staður utan við göngugöturnar, þar sem fólk getur lagt og gengið síðan inn í bæinn. Eða, sem er enn betra, komið í strætó eða hjólandi.

Það hefur lengi verið mín skoðun að við ættum að fjölga göngugötum í miðbæ Reykjavíkur, og það er raunar eitt af markmiðum Grænu skrefanna. Austurstrætið blasir við, en fleiri götur og torg þarf einnig að skoða. Til dæmis torgin fallegu í Þingholtunum: Óðinstorg, Freyjutorg og Baldurstorg. Þau hafa öll verið tekin undir bílastæði,en áður gat fólk setið á bekkjum þar, notið sólarinnar og spjallað saman. Út um alla borg eru svæði sem við þurfum að endurheimta fyrir mannlíf. Það eru ekki dýrar aðgerðir, en munu reynast undragóðar fyrir íbúa, kaupmenn og alla sem þykir vænt um borgina sína.