Enid Blyton

Áhugaverð umræða er komin af stað í Bretlandi um endurútgáfu á bókum Enid Blyton, höfundi Fimm-bókanna, Sjö-bókanna, Ævintýrabókanna og fjölda annarra, sem börn og unglingar lásu áratugum saman. Útgefendur telja að kynslóðin sem tók ástfóstri við Harry Potter og félaga muni ekki síður verða hrifin af Önnu, Jonna, Georgínu og öllum hinum persónunum í bókum Blyton. Við Íslendingar þekkjum Astrid Lindgren sennilega betur en þessa skáldsystur hennar, en Blyton er þó sennilega talsvert þekktari á heimsvísu. Bækur hennar hafa selst í 400 milljón eintökum, álíka mörgum og rit Shakespeares.

Það sem menn eru að velta fyrir sér í breskum fjölmiðlum þessa dagana, er hvort bækur Blyton eigi eitthvað erindi við börn og unglinga í dag. Spurningar hafa vaknað um kynhlutverkin sem birtast bókunum, þá er ákveðin rasismi líka augljós í mörgum af verkum hennar og viðfangsefni barnanna eru svo ólík því sem við eigum að venjast í dag, að margir telja að börn muni ekki sýna þessum bókum neinn áhuga.

Ég er ekki viss um að það síðastnefnda sé rétt. Ég las bækur Blyton upp til agna sem strákur og var upp frá því stöðugt reiðubúinn að handsama þjófa eða koma upp um frakkaklædda, dularfulla þrjóta sem lögreglan var of vitlaus til að sjá. Verst fannst mér að fá hvergi engiferöl í Breiðholtinu (ég fattaði ekki tenginguna við Ginger Ale fyrr en löngu seinna). En ég skemmti mér vel yfir þessum bókum, þótt það blasti við að tíðarandinn umhverfis mig var annar en sá sem Blyton var að lýsa. Síðustu árin hef ég líka prófað að lesa þessar bækur fyrir dætur mínar, með góðum árangri, þótt orðfærið í bókunum sé stundum dálítið fornt og skrýtið og ég þurfi að sleppa einstaka setningum.

En spurningin um kynjahlutverkin og rasismann er viðkvæmari. Blyton byrjar að skrifa uppúr 1920 og þótt hún skrifi til dánardags árið 1968, finnst manni hugarheimurinn vera dálítið fastur á fyrrihluta þessa tíma. Blyton samdi eina bók um svarta dúkku sem var ákaflega sorgmædd yfir því að vera svört og dreymdi um að verða „bleik“. Stelpur eru látnar vita að tilteknir hlutir séu engin kvenmannsverk og meira að segja í daglegu amstri aðalsöguhetjanna (sem eru bara krakkar) eru endalausar vísanir í að eitthvað sé of hættulegt fyrir stelpurnar eða þá að þær eru settar í að útbúa matinn (fyrir lautarferð væntanlega) á meðan strákarnir fara og redda málunum. Ótal dæmi eru týnd til í breskum blöðum um þetta, og þarf ekki mikla vinnu til, því þessi umræða hefur komið upp reglulega á undanförnum árum. Við Íslendingar fengum skerf af þessum deilum heima þegar ákveðið var að endurútgefa 10 litla negrastráka.

Það sem er hinsvegar leiðinlegt við þessa umræðu er hvað hún er oft einhliða (ég hætti við að segja svart/hvít). Annaðhvort vilja menn banna endurútgáfu á þessum bókum óbreyttum, eða líta á það sem grófa ógn við tjáningafrelsið að bent sé á að textinn geti verið særandi fyrir fólk og ali á fordómum. Auðvitað er fráleitt að ætla að banna bækur af þessum toga eða gera það að skilyrði að þær séu ritskoðaðar. En mér finnst líka fráleitt að heimta að bækurnar séu gefnar út nákvæmlega einsog þær voru, ella sé málfrelsið í hættu. Oft vilja útgefendurnir sjálfir (og höfundarnir, ef þeir eru á lífi) gera lagfæringar á bókum sínum, endurskoða það sem er orðið úrelt og þar fram eftir götunum. Það er eitthvað einkennilegt að berjast hatramlega gegn því. Við það að lesa bækur Blyton er alveg augljóst að eitt og annað í þeim er algerlega úrelt. Það er ekkert stórmál fyrir mína krakka þótt Finnur og Jonni skipti úr engiferöli yfir í vatn, sem vafalaust nær betur til krakka í dag og þeir verða ekkert flatari karakterar þótt þeir séu ekki rasistar.

Í aðalatriðum held ég þó að við verðum að treysta foreldrum fyrir uppeldi barna sinna. Ef þeir foreldrar eru til sem vilja mata börnin sín á úreltum kynjahlutverkum, að ekki sé talað um rasisma, þá verðum við að treysta skólunum okkar og upplýstri umræðu fyrir því að vega upp á móti því fólki. Slíkt fólk mun bara komast yfir eitthvað annað lesefni ef Anna og Dísa verða gerðar að feministum.