Fríða Kahlo

Ég fór í Þjóðleikhúsið á dögunum og sá sýninguna um Fríðu Kahlo; Frida…viva la vida. Sýningin hefur verið talsvert í umræðunni og greinilegt var að hún lenti í hringiðu leikhúspólitíkur, en mér skilst að stjórnmálin í borginni séu leikur einn við hlið hennar.

Ekki kann ég neitt að gagnrýna leikhús … en ég veit hvað mér finnst gott, eins og þar stendur.

Mér fannst sýningin mjög skemmtileg. Frá upphafi til enda var framvindan áhugaverð og leikurinn góður. Ég vissi ekki meira en hver annar um ævi Fríðu, þannig að fyrir mig var sýningin líka fróðleg. Saga þessarar merkilegu konu og fólksins í kringum hana á erindi við hvern sem er, á hvaða tíma sem er. Í leikritinu birtist Fríða sem skrýtin lítil skrúfa, með óvenju sterka sannfæringu og innri kraft, sem skilaði henni ævintýralegu lífi. Leikstjóranum og leikhópnum tekst að koma þessu vel til skila. Þótt Fríða sé alltaf í forgrunni, er þarna mikið persónugallerí í litríkum, mið-amerískum stíl, sem víkkar sjónarhornið og færir áhorfandanum pínulitla innsýn inn í lífið í Mexíkó um miðja síðustu öld. Þá er einnig óhætt að taka undir það hrós sem tónlistin í verkinu hefur fengið – þótt ég hafi haft það gaman af sögunni að mér líkaði tónlistin best þegar hún var í bakgrunni, fremur en þegar sönghópurinn brast í söng.

Þessu kvöldstund í Þjóðleikhúsinu var þess vegna mjög ánægjuleg og fyrir það færi ég öllum aðstandendum sýningarinnar þakkir.