Framtíð Hreins Lofts

Fyrir nokkrum árum vakti Reykjavíkurborg athygli á þeirri hættu sem steðjar að hreinu lofti í borginni með herferð sem bar yfirskriftina: Framtíð Hreins Lofts er í þínum höndum. Markmiðið með þessu var að vekja Reykvíkinga til umhugsunar um að hreina loftið, sem við höfum alist upp við í borginni, er hreint ekki sjálfsagt. Það er meira að segja svo að ýmsar viðvörunarbjöllur eru þegar farnar að klingja. Borgirnar í kringum okkur telja dauðsföll vegna svifryks frá bílaumferð í hundruðum eða jafnvel þúsundum. Bílaumferð í Reykjavík er meiri á hvern íbúa en í nokkurri þessara borga. Bílar hér eru um 750 á hverja 1000 íbúa, en t.d. 350 í Kaupmannahöfn.

Það er mikilvægt að fólk líti ekki á það sem andstöðu við bíla, að vakin sé athygli á neikvæðum áhrifum þeirra á borgina. Svifryk, hávaði, útblástursmengun og slys eru alltsaman óskemmtilegir og hættulegir fylgifiskar bílaumferðar, og við eigum að reyna að draga úr þeim. Fram að 1994 var bílaumferð í borginni svipuð því sem hún er víðast hvar í Evrópu og mörgum borgum Bandaríkjanna. En með vondri stefnu í samgöngumálum og algeru aðgerðarleysi fóru hlutirnir á verri veg undir stjórn vinstri meirihlutans í borginni frá 1994-2006. Bílaumferð nær tvöfaldaðist, með mjög slæmum afleiðingum fyrir borgarbúa. Nú er staðan sú, samkvæmt tölum frá Eurostat, að svifryk í þéttbýli á Íslandi er meira en í t.d. Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Írlandi, eins og súluritið sýnir. Sú nöturlegu staðreynd blasir einnig við að börnum í leikskólum nærri stórum umferðaræðum í Reykjavík er haldið inni þá daga sem mengunin er yfir heilsuverndarmörkum. Í Ríkisútvarpinu eru sömuleiðis lesnar upp viðvaranir til þeirra sem eru með öndunarfærasjúkdóma, og þeir hvattir til að halda sig innandyra þá daga sem mengunin er mest. Þetta er ekki sú Reykjavík sem við ólumst upp í.

Lundúnir þekkja loftgæðamál betur en flestar borgir Evrópu. Blaðið The Economist gerir mengunina þar að umtalsefni í nýjasta tölublaði sínu. Fyrr á öldum var mengunin í Lundúnum vegna kolabrennslu, en mengunin sem Boris Johnson borgarstjóri Lundúna berst nú gegn er fyrst og fremst vegna samgangna. Mestu skaðvaldarnir eru svifryk (particulate matters) og nituroxíðsambönd. Að minnsta kosti 1000 manns deyja árlega í Lundúnum vegna loftmengunar, skv. The Economist, en sú tali gæti verið miklu hærri, allt að 8000 manns.

Hér á landi eru rannsóknir á skaðsemi svifryks og nituroxíðsambanda komnar frekar skammt á veg. Læknar hafa þó sagt að þar sem mengun er mest á höfuðborgarsvæðinu, sé hún svipuð og í evrópskum stórborgum. Þórarinn Gíslason læknir sagði í viðtali við Morgunblaðið árið 2007 að um eða yfir 40.000 manns á höfuðborgarsvæðinu önduðu að sér slíku menguðu stórborgarlofti. Þá daga sem vindurinn blæs ekki hraustlega, verður mengun í Reykjavík sýnileg í gulri slykju sem liggur yfir borginni. Í meistararitgerð Þorsteins Jóhannssonar í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands segir um svifryk: „Svifryk eru fastar agnir sem vegna smæðar sinnar svífa um í andrúmsloftinu. Venjulega er talað um svifryk þegar þvermál agnanna er minna en 10 µm. Til samanburðar má geta þess að mannshár er um 60 µm í þvermál. Seinni árin hefur athygli mikið beinst að smæstu ögnunum og því er oft sérstaklega fjallað um agnir sem eru minni en 2,5 µm í þvermál. Það stafar af því að þær komast dýpra ofan í lungu fólks og geta því valdið meiri heilsufarsskaða en grófari agnirnar sem stoppa ofar í öndunarveginum.“ (Bls. 13). Þorsteinn segir jafnframt frá rannsókn á 60 þúsund konum í Bandaríkjunum sem sýndi fram á sterka fylgni milli svifryks og aukningar hjartasjúkdóma og heilablóðfalla. (Bls. 13).

Reykvíkingar þurfa, rétt eins og íbúar Lundúna, að bregðast við þessu með skynsamlegum hætti. Meirihlutinn í borginni hefur gripið til ýmissa aðgerða. Reykjavíkurborg mælir loftgæði nákvæmlega og miðlar upplýsingum, svo borgarbúar séu meðvitaðir um hættuna. Borgin hefur einnig gert tilraunir með samsetningu malbiks, auk þess að þrífa göturnar og rykbinda. En þessar aðgerðir duga skammt ef bílaeign heldur áfram að vaxa, og umferð á götunum að þyngjast í hlutfalli við fólksfjölgun. Lausnin til framtíðar er að þétta byggðina, sem styttir vegalengdir og gerir fólki kleift að komast á milli staða á einfaldan og öruggan máta, á þann hátt sem hentar þeim best. Meirihlutinn í Reykjavík vinnur hörðum höndum að þessum markmiðum. Farþegum í strætó hefur fjölgað um milljón manns á ársgrundvelli, forgangsakreinar fyrir vagnana hafa verið þrefaldaðar að lengd og sérstakir hjólreiðastígar eru nú um það bil tuttugu sinnum lengri en þeir voru árið 2006. Þessi mikli árangur er ekkert annað en hljóðlát bylting í umhverfis og samgöngumálum borgarinnar, sem vinstrimenn töluðu svo mikið um en verkin létu á sér standa. Hljómar kunnuglega.