Gott íslenskt ákvæði

Talið er að íslenska ákvæðið svokallaða hafi og muni skila Íslendingum 15 milljörðum króna  á skuldbindartíma Kyoto samningsins. Það væri þó lítils virði ef við værum í leiðinni að skemma hnöttinn. En þannig er það ekki. Talið er að vegna íslenska ákvæðisins hafi losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum minnkað um 5-14 milljón tonn, miðað við það sem verið hefði ef Íslendingar hefðu ekki samið um sér ákvæði.

Ísland á að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. Við höfum allar forsendur til þess. Margt þurfum við að gera betur, til dæmis í samgöngumálum, endurvinnslu og framræsingu lands, en við erum hinsvegar fremst í flokki í fjölmörgu öðru. Nýting okkar á innlendum orkugjöfum er til mikillar fyrirmyndar og við eigum að auka hlut þeirra hröðum skrefum, á kostnað innfluttra, óendurnýjanlegra orkugjafa. Það getum við til dæmis gert með því að taka forystu í innleiðingu rafmagnsbíla og nota metan á strætisvagnaflotann, svo dæmi séu tekin. Það væru stór skref í átt að sjálfbærni, sem einnig spara okkur milljarða.

Þessa dagana tala sumir eins og Ísland hafi fengið eitthvað aumingjaákvæði á fundinum í Kyoto. Eins og við höfum fengið leyfi til að vera umhverfissóðar. Því fer fjarri. Á fundinum í Kyoto var fjöldi ríkja og ríkjasambanda með sérstakar aðstæður sem samið var um. Ísland var hreint ekki eitt um það. Flest sömdu um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda um 5-8% (misjafnt eftir löndum), Rússland, Nýja Sjáland og Úkraína þurftu ekkert að minnka og þrjú ríki fengu leyfi til að auka losunina. Ísland var eitt þeirra. Ástæðan var sérstaða Íslands sem lands með lítinn efnahag, sem framleiddi sína eigin endurnýjanlegu orku. Viðsemjendur okkar féllust á þær röksemdir að endurnýjanlega orkan á Íslandi ynni það mikið með okkur, að aukin losun upp á 10% væri ekki skaðleg fyrir Kyoto samkomulagið.

Þeir sem nú vilja að Ísland nýti ekki samningsstöðu sína, verða að svara því hversu mikið þeir vilja að Ísland dragi úr losun sinni. Líklegt er að loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn í desember muni enda þannig að þjóðir heims semji hver fyrir sig, rétt eins og í Kyoto. Hvar á Ísland að stilla sér upp í því? Eigum við að heimta að vera í þeim hópi sem minnkar losunina mest? Eða næstmest? Eða eigum við að nýta sérstöðu okkar, halda með Íslandi og fá sanngjarna samninga sem taka mið af einstakri stöðu okkar sem lands sem aðrar þjóðir geta tekið til fyrirmyndar?