Árekstur á hjóli

Ég lenti í minniháttar árekstri á hjólinu mínu í dag. Ég var að hjóla eftir Skúlagötunni og var á gangstéttinni, þegar útúr bílakjallara kemur bíll sem þarf að fara yfir gangstéttina til að komast út á götu. Ég var sem betur fer ekki á mikilli ferð, en ökumaðurinn var eitthvað annars hugar og sá mig ekki fyrr en um seinan, þannig að hann ók í veg fyrir mig og ég hjólaði á hann. Þetta var hinsvegar ekki mikið högg, enginn slasaðist og hjólið skektist bara lítillega. Ökumaðurinn var alveg miður sín og einlæg iðrun hans og falleg framkoma varð til þess að við skildum fullkomlega sáttir og kvöddumst með virktum. Ég náði meira að segja að rétta hjólið, þannig að ég gat hjólað á því það sem eftir lifði dags og vona að ökumaðurinn lesi þetta og hafi ekki frekari áhyggjur af mér eða hjólinu.

Í Reykjavíkurborg hefur verið unnið hörðum höndum að því að bæta aðstöðu hjólreiðafólks í borginni undanfarin ár. Því miður hefur aðstaðan ekki verið nógu góð og of margir hafa lent í verri óhöppum en ég og meitt sig mikið. Þegar við tókum við stjórnartaumum í borginni árið 2006 voru sérstakir hjólastígar hér 450 metra langir. Þeir eru nú 8700 metrar. Þá eru ekki taldir með stígarnir sem eru bæði fyrir hjólandi og gangandi, heldur aðeins sérmerktir hjólreiðastígar. Miklu betur þarf að gera, en við reynum að vinna þetta hratt. Reykjavík er vel til þess fallin að verða framúrskarandi góð hjólaborg. En til þess þarf að leggja fleiri hjólreiðastíga meðfram götum, kenna ungum krökkum hvernig þeir eiga að haga sér í umferðinni (hjólafærni er það kallað) og bæta alla aðstöðu hjólreiðafólks. Það ætlum við að gera, og erum að gera. Fleira þarf þó að koma til. Þétt byggð er til dæmis ein af forsendum betri hjólamenningar. Þar sem byggð er þétt hjóla fleiri en þar sem dreifðar er byggt. Í þéttri byggð eru vegalengdirnar stuttar og því styttri sem ferðirnar eru, því líklegra er að fólk gangi eða hjóli. Mörg af okkar bestu hverfum í austurhluta borgarinnar henta vel til hjólreiða og með því að tryggja góða og örugga hjólreiðastíga, gætu fleiri börn farið milli skóla og tómstunda á hjóli en nú er raunin.

Þótt enginn sé dómari í eigin sök held ég að frá því Grænu skrefin voru kynnt, hafi uppbygging hjólreiðastíga gengið hraðar hér en í mjög mörg ár þar á undan. Það er sérstakt markmið hjá meirihlutanum sem nú situr í borgarstjórn að fjölga hjólreiðafólki í borginni. Hjólreiðafólk mengar ekki, tekur minna pláss en ef það sæti eitt í bíl og kostar samfélagið miklu minna en ef það keyrði. Frjálshyggjumaðurinn Ron Paul sagði þegar hann bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna á síðasta ári, að hann vildi að hjólreiðafólk fengi skattaafslátt, enda sparaði það ríkinu svo mikla fjármuni.

Sjálfur hjóla ég aðallega af því það er þægilegasti ferðamátinn fyrir mig. Ég vinn mest í miðborginni og þyrfti að finna mér stæði og borga fyrir það ef ég væri á bíl. Það tæki mig sennilega lengri tíma en að hjóla þennan spotta úr Vesturbænum. Það er svo sérstakur auka bónus að á hjólinu er auðvelt að stoppa og spjalla við fólk sem maður mætir, taka við ábendingum og athugasemdum frá fólki á förnum vegi eða bara finna lykt, heyra hljóð og njóta þess að vera úti í góðu veðri eins og var í dag.

Ég læt að gamni mínu fylgja kynningarmyndband frá Lundúnum, en það er ein þeirra borga sem hefur aukið hlut hjólandi vegfarenda í borginni verulega á undanförnum árum.

Ég set líka þetta myndband frá Kaupmannahöfn, sem sýnir að borgir geta verið góðar hjólaborgir þótt veðrið sé stundum hressilegt. Raunar er það svo, eins og allir vita sem hjóla, að langflesta daga ársins er veðrið í Reykjavík engin hindrun fyrir hjólafólk og veturnir hér mildari en í mörgum borgum þar sem mikið er hjólað.

Copenhagenize.com – Winter Cycling Redux from Copenhagenize on Vimeo.