Græna borgin í Evrópu

Á fundi borgarstjórnar í dag flutti ég tillögu fyrir hönd meirihlutans um að Reykjavík myndi sækja um að verða „Græna borgin í Evrópu“ (European Green Capital). Tillagan var samþykkt með 14 atkvæðum af 15, fulltrúi F-listans sat hjá. Umhverfis og samgöngusvið mun nú hefja vinnu við umsóknina.
Greinargerðin með tillögunni segir allt sem segja þarf um þessa viðurkenningu sem borgin ætlar nú að sækjast eftir. Umsóknin mun ekki kosta neitt, en talið er að Reykjavík geti haft af því margvíslegt gagn að fá þessa viðurkenningu. Þeir sem fylgst hafa með framkvæmd Grænu skrefanna vita að mikið hefur áunnist í umhverfismálum á þessu kjörtímabili. Reykjavík var auðvitað með grænustu borgum Evrópu fyrir, en við þurfum þó að taka okkur á í ýmsum málum til að auka möguleikana á því að fá viðurkenninguna, eins og kemur fram í greinargerðinni.

Greinargerðin fer hér á eftir:
Árið 2006 var tekin ákvörðun hjá Evrópusambandinu um að tilnefna árlega eina borg í Evrópu sem „Grænu borgina í Evrópu“ (European Green Capital). Með þessari viðurkenningu vill Evrópusambandið leggja áherslu á mikilvægi borga í umhverfismálum og hlutverk þeirra við innleiðingu sjálfbærrar þróunar. Hugmyndin að baki viðurkenningunni er að vera hvatning til allra borga um að bæta umhverfi sitt, en sem kunnugt er býr nú yfir helmingur mannkyns í borgum.

Við mat á þeim borgum sem koma til álita sem Græna borgin í Evrópu er helst horft til tólf þátta, svokallaðra umhverfisvísa, sem segja til um stöðu viðkomandi borgar í umhverfismálum. Þessir vísar eru eftirfarandi:

• Áhersla á loftlagsmál
• Samgöngur
• Græn svæði
• Sjálfbær landnotkun
• Náttúra og líffræðilegur fjölbreytileiki
• Loftgæði
• Hávaðamengun
• Magn úrgangs og stjórnun
• Vatnsnotkun
• Vatnsmeðhöndlun
• Umhverfisstjórnun
• Miðlun upplýsinga um reynslu og verkefni sem teljast til fyrirmyndar

Matsnefnd Evrópusambandsins horfir einnig heildrænt á viðkomandi borg og þá er sérstaklega talið mikilvægt að borgin hafi (i) að jafnaði sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum, (ii) sýnt staðfestu í þeim málaflokki með því að tileinka sér hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og (iii) að borgin geti orðið öðrum góð fyrirmynd í umhverfismálum og hvatning til góðra verka á því sviði.

Árið 2008 var óskað eftir fyrstu tilnefningum fyrir Grænu borgina í Evrópu, þ.e. fyrir árin 2010 og 2011. Stokkhólmur og Hamborg hrepptu þær tilnefningar og því mun Stokkhólmur fyrst borga bera titilinn Græna borgin í Evrópu árið 2010 og Hamborg árið 2011. Nú er auglýst eftir tilnefningum fyrir árin 2012 og 2013.

Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár unnið ötullega að umhverfismálum. Skýrasta dæmið um það eru Grænu skrefin, sem unnið hefur verið eftir frá vorinu 2007. Grænu skrefin spruttu upp úr vinnunni við Reykjavík í mótun, stefnu okkar til sjálfbærrar þróunar, sem var samþykkt í borgarstjórn í maí 2006. Stefnan var unnin í víðtæku samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila og var tilnefnd til viðurkenningar Eurocities fyrir lýðræðisleg vinnubrögð. Grænu skrefin innleiða ekki einungis Reykjavík í mótun heldur einnig aðrar stefnur er varða umhverfismál, s.s. græna samgöngustefnu borgarinnar og nýlega samþykkta loftlags- og loftgæðastefnu.

Reykjavíkurborg hefur á mörgum sviðum unnið brautryðjendastarf á sviði umhverfismála á landsvísu. Borgin hefur þannig verið öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum fyrirmynd á sviði umhverfismála. Má þar t.a.m. nefna loftlags- og loftgæðastefnu borgarinnar. Frumkvæði borgarinnar hefur þó ekki síst birst í upplýsinga- og fræðslumálum. Borgin hefur m.a. verið brautryðjandi í umræðu um tengsl umhverfis og heilsu og um samgöngumál sem umhverfismál, en við upphaf þessa kjörtímabils voru umhverfis og samgöngumálin sameinuð í einni nefnd. Borgin hefur ennfremur unnið að metnaði að því að fræða leik- og grunnskólabörn um náttúruna í borginni í gegnum Náttúruskóla Reykjavíkur. Þannig hafa reykvísk börn á skólaaldri kynnst Reykjavík sem grænni höfuðborg.

Það yrði mikill heiður fyrir Reykjavíkurborg að verða tilnefnd sem Græna borgin í Evrópu. Til þess að svo megi verða þarf Reykjavíkurborg að vinna áfram að framgangi umhverfismála og slaka hvergi á áherslunni á Græn skref. Sérstaklega þarf að huga að samgöngumálum en segja má að staðan í þeim málaflokki veiki að vissu marki samkeppnisstöðu Reykjavíkurborgar. Á því sviði eru að fara af stað afar metnaðarfull verkefni, svo sem hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar og rafbílavæðing borgarinnar, sem mikilvægt er að borgin setji í forgang og fylgi eftir af mikill festu.

Í ljósi þess metnaðar sem Reykjavíkurborg hefur lagt á umhverfismál borgarinnar undanfarin ár og stefnumótandi verkefna sem framundan eru, hlýtur Reykjavíkurborg að teljast vel samkeppnishæf um titilinn Græna borgin í Evrópu, European Green Capital. Því er lagt til að Reykjavíkurborg sæki um tilnefningu og að umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar falið að vinna að umsókn í samráði við önnur svið og stofnanir borgarinnar er málið varða.