Af skatta-útreikningum Gríms Atlasonar

Fyrir nokkrum dögum skrifaði Grímur Atlason pistil um skattamál á bloggsíðu sína undir fyrirsögninni: “Af meintri brjálsemi ríkisstjórnarinnar”. Pistillinn fór sem eldur í sinu um netið, enda töldu vinstrimenn að Grímur hefði sýnt fram á að breytingarnar væru ákaflega hófsamar. Hann hélt því nánar tiltekið fram að áhrifin væru eftirfarandi:

“Þeir sem eru með 150.000 kr. í mánaðalaun borga 1.650 kr. minna.
Þeir sem eru með 300.000 kr. í mánaðarlaun borga 800 kr. minna.
Þeir sem eru með 400.000 kr. í mánaðarlaun borga 3.100 kr. meira.
Þeir sem eru með 600.000 kr. í mánaðarlaun borga 16.900 kr. meira.
Þeir sem eru með 1.000.000 kr. í mánaðarlaun borga 32.500 kr. meira.”

Við þessa útreikninga Gríms er sitthvað að athuga.

Í fyrsta lagi nýtir hann sér hugsanlegt afnám núverandi hátekjuskatts (8% á laun umfram 700.000 kr.) um næstu áramót til að draga úr áhrifum breytinganna á hátekjufólk. Hátekjuskatturinn er glænýr skattur sem var lagður á núna í sumar, tímabundið í hálft ár. Boðaðar breytingar ríkisstjórnarinnar fela í sér að áður ákveðið afnám hans kemur í raun ekki til framkvæmda. Að sjálfsögðu á að bera áhrif hinna umdeildu breytinga saman við það sem stóð til að gera, þ.e. að afnema þennan nýja, tímabundna skatt. Síðasta línan í frægri töflu Gríms Atlasonar ætti því að vera svona:

“Þeir sem eru með 1.000.000 kr. í mánaðarlaun borga 55.500 kr.meira.”

Þetta er þó aukaatriði hjá þeim alvarlegu mistökum Gríms að láta ríkisstjórnina sleppa alveg ókeypis frá því að svipta launafólk hækkun á persónuafslætti. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu stendur skýrum stöfum að persónuafsláttur verði “ekki hækkaður á milli ára”, meðal annars vegna hins erfiða efnahagsástands. Þar með virðist eiga að svíkja hvort tvegga: lögbundna verðbólguleiðréttingu persónuafsláttar sem á að tryggja að afslátturinn rýrni ekki að verðgildi, og í öðru lagi hækkun afsláttarins um 2.000 kr. á mánuði um næstu áramót sem var lögfest árið 2008. Samtals felur þessi ákvörðun í sér rúmlega 6 þúsund króna skattahækkun á mánuði á hvern einasta launamann miðað við það sem áður hafði verið ákveðið – skattahækkun sem ótrúlegt er að Grímur skuli ekki minnast á.

Þegar búið er að leiðrétta þessi mistök lítur taflan svona út:

Þeir sem eru með 150.000 kr. í mánaðalaun borga 4.420 kr. meira(53.040 kr. á ári).
Þeir sem eru með 300.000 kr. í mánaðarlaun borga 5.120 kr. meira(61.440 kr. á ári).
Þeir sem eru með 400.000 kr. í mánaðarlaun borga 8.920 kr. meira(107.040 kr. á ári).
Þeir sem eru með 600.000 kr. í mánaðarlaun borga 22.520 kr. meira (270.240 kr. á ári).
Þeir sem eru með 1.000.000 kr. í mánaðarlaun borga 61.720 kr. meira (740.640 kr. á ári).

Eins og þarna kemur fram er verið að hafa yfir 50 þúsund krónur á næsta ári af láglaunafólki með þessum aðgerðum, eða yfir 100 þúsund krónur af hjónum sem bæði eru með 150.000 kr. í mánaðarlaun.

Og þótt 600.000 kr. mánaðarlaun séu ágæt teljast það seint vera ofurlaun, allra síst eftir verðhækkanir undanfarinna missera og hækkanir afborgana. Hjón sem hafa hvort um sig þessar tekjur eru svipt yfir hálfri milljón króna á næsta ári með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Hafa þau efni á því?

Loks má nefna að heimildum ber ekki saman um hvort til standi í raun að afnema 8% hátekjuskattinn á laun umfram 700.000 kr. Allt eins virðist koma til greina að hafa hann áfram við lýði, sem myndi væntanlega þýða að skatthlufall á tekjur umfram þessa fjárhæð yrði 55%. Þá myndi síðasta línan í töflu Gríms líta svona út:

Þeir sem eru með 1.000.000 kr. í mánaðarlaun borga 85.720 kr. meira.