Vonarstrætið

Ólíkt hafast þær að Hönnurnar; Jóhanna Sigurðardóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Þessar ágætu konur sem starfa hvor sínum megin við Vonarstrætið standa báðar frammi fyrir erfiðum aðstæðum í þeim stofnunum sem þær stýra. En þær bregðast ólíkt við þeim.

Í dag lagði borgarstjórn Reykjavíkur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Þar er forgangsraðað í þágu velferðarmála og barna. Mikilvægast af öllu er þó að skattar eru ekki hækkaðir. Minnihlutinn hefur bent á að Reykjavík hefur „svigrúm til skattahækkanna“, og lagt til að það verði nýtt. Stefna meirihlutans er hinsvegar skýr: Við teljum að með hagræðingu og aðhaldsemi sé hægt að ná fram nægum sparnaði til að mæta því tekjutapi sem borgin verður fyrir vegna efnahagsástandsins. Skattahækkanir koma ekki til greina. Við höfum velt við öllum steinum, skoðað hverja skúffu og farið yfir öll svið borgarinnar til að leita leiða til að spara og hagræða. Rétt eins og heimilin í borginni hafa verið að gera til þess að ná endum saman.

Hinum megin Vonarstrætis starfar ríkissjórn sem vinnur öðruvísi. Í stað þess að hagræða til að mæta tekjutapinu, eða reyna að örva atvinnulífið til að skapa meiri tekjur, er vandanum velt yfir á almenning. Það gerir ríkistjórnin með sögulegum skattahækkunum sem leggjast þungt á venjulegt fólk, eins og ég hef gert grein fyrir hér að neðan. Samt hafa alþjóðlegar stofnanir lýst því yfir að hægt væri að spara milljarða í ríkisrekstrinum. Bara í stjórnsýslunni sjálfri væri hægt að ná fram miklum sparnaði. Þar hefur safnast saman fitulag sem hægt er að skera burt. Opinber stjórnsýsla þarf ekki að kosta jafn mikið og hún gerir. En í stað þess að leita þessara leiða, gefst ríkisstjórnin upp á því að spara, og hækkar frekar skattana, til þess að ráðstöfunartekjur almennings minnki en ríkissjóður fitni. Það er vond stefna, eins og þegar er byrjað að koma í ljós. (Grein eftir mig um það birtist í Morgunblaðinu í dag).

Að lokum læt ég þess getið fyrir áhugafólk um sögu Reykjavíkur, að Vonarstræti dregur nafn sitt af þeim vandræðum sem menn lentu í þegar byrjað var að leggja götuna fyrir um 100 árum. Á tímabili var mjög tvísýnt um hvort af framkvæmdinni gæti orðið og varð nafnið þá til.