Daufur blár punktur

Afi vinar míns var að deyja. Góður maður, afburðamaður í ýmsum skilningi, en aðallega í mínum huga afi vinar míns. Við vorum að velta fyrir okkur lífinu og tilverunni af þessu tilefni og fórum vafalaust með almælt sannindi um mikilvægi þess að njóta lífsins.

Fjölmargir hafa orðað slíka hugsun vel og óþarfi að fara að vitna í það. Mig langar þó til að setja hingað inn þetta stutta myndbrot hér að neðan. Ég hef áður sett þetta á Facebook síðuna mína, og örugglega horft á þetta hundrað sinnum sjálfur. Carl Sagan, sá mikli snillingur, er hér að tala um ‘the pale blue dot’. Daufi punkturinn sá er auðvitað jörðin, og Sagan veltir fyrir sér hversu pínulítil við erum, og hvernig stjörnufræðin sem hann stúderaði getur kennt okkur að vera betri hvert við annað. Hjaðningavíg sem mannkynið hefur stundað í litlum og stórum hornum heimsins verða ósköp fáfengileg og tilgangslaus í þessu samhengi. Þetta er þrjár og hálf mínúta, og það er merki um ranga forgangsröðun að hafa ekki tíma til að horfa!