Þrjár merkilegar fréttir

Þrjár merkilegar kannanir hafa ratað á mitt borð undanfarna daga. Þær eru allar um samgöngumálin í Reykjavík og fela í sér dálítil tíðindi, finnst mér. Þrennt get ég dregið sérstaklega fram:

1. Umferðin í Reykjavík gengur greiðar fyrir sig en áður, og nú í haust var fólk að meðaltali 3-4 mínútum fljótar á leið sinni úr úthverfunum að atvinnukjörnum, en á sama tíma í fyrra. Starfsmenn samgöngusviðs keyra þessar leiðir og mæla með nákvæmum mælitækjum hvernig ferðin gengur, hversu langan tíma hún tekur og svo framvegis. 3-4 mínútur hljóma kannski ekki mikið, en þegar þetta er margfaldað á alla borgarbúa verða þetta ansi margar vinnustundir.

2. Talsvert færri bílar eru á götum borgarinnar nú en áður. Sniðtalningar sýna að það hafa ekki verið færri bílar á götum borgarinnar síðan 2004. Munurinn er í raun enn meiri þegar horft er til þess að Reykvíkingum hefur fjölgað um nokkur þúsund síðan þá.

3. Ástæðan fyrir minni bílaumferð er auðvitað að mjög miklu leyti kreppan og atvinnuleysið, því færri eru hreinlega á leiðinni í vinnuna á morgnana. En það dugir ekki sem skýring. Því af þeim sem eru að keyra til vinnu á morgnana, eru færri einir í bíl en áður. Nú eru „aðeins“ 71% borgarbúa einir í bíl á leið til vinnu, en þessi tala var 76% í fyrra. Þá fóru líka aðeins 9% gangandi eða hjólandi til vinnu, en nú velja 14% þá ferðamáta. Það munar svo sannarlega um minna.

Fleiri tölur styðja þá tilfinningu sem við sem störfum í þessum málum höfum haft; ferðamátar okkar eru að verða fjölbreyttari en þeir hafa verið. Fleiri kjósa að skera niður í ferðakostnaði sínum, enda eru samgöngur stærri hluti af útgjöldum heimilanna en matarinnkaup. Borgin hefur þá skyldu að gera borgina þannig úr garði að þeir sem ekki hafa fjárráð til að reka tvo bíla á heimili, geti komist á milli staða á fljótlegan og öruggan hátt. Það gerum við með því að leggja góða göngu- og hjólreiðastíga, reka almenningssamgöngur og reyna að hanna borgina þannig að fólk komist auðveldlega á milli staða.

Í nýrri könnun sem Bjarni Reynarsson gerði, sögðu 49% íbúa höfuðborgarsvæðisins að „mikilvægasta aðgerð samgönguyfirvalda á höfuðborgarsvæðinu“ væri að „styrkja almenningssamgöngur“. 36% sögðu að mikilvægast væri að „setja aukið fé í lagningu göngu- og hjólreiðastíga“. 13% sögðu að mikilvægast væri að „einbeita sér að þeim framkvæmdum við stofnbrautakerfið sem gefa mesta arðsemi.“

Borgaryfirvöld þurfa auðvitað að horfa á allar þessar niðurstöður og læra af þeim. Að mínu mati er lærdómurinn sá að við eigum að auðvelda fólki að ferðast um borgina á þann hátt sem það kýs. Ef borgin er skynsamlega skipulögð og hverfin örugg fyrir börnin okkar, munu fleiri og fleiri kjósa að ganga og hjóla styttri vegalengdir, námsmenn munu velja að taka strætó í skóla (og sumir halda því áfram eftir skólagöngu) og þeir sem keyra komast þá greiðar um, þurfa að verja minni tíma í umferðarteppum og samgöngumannvirkin okkar nýtast betur.