Kaffihús í Hljómskálagarðinum

Ásamt því að fella furðutillögu um nýja kosningu um Vatnsmýrina á borgarstjórnarfundi, hef ég unnið hörðum höndum að nokkrum mikilvægum málum sem meirihlutinn í borginni fól mér að sjá um. Aðallega eru þetta mál sem ég hef verið að vinna í lengi og nýr formaður umhverfis- og samgönguráðs Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir fékk mig til að halda áfram með.

Kaffihús í Hljómskálagarðinum er eitt þessarra mála. Sú hugmynd hefur oft komið fram og á síðasta kjörtímabili vakti Dagur B. Eggertsson hana til lífsins, þótt lítið hafi gerst. Ásamt Framsóknarflokknum gerðum við þetta mál að hluta Grænu skrefanna. Síðan þá hef ég verið formaður í hópi um verkefnið, með 100 daga hléi. Á fundi á miðvikudaginn var staðsetningin endanlega valin og Garðyrkjustjóri og Framkvæmdasvið munu nú auglýsa eftir áhuga arkitektastofa og hönnuða á verkefninu. Frambærilegustu aðilarnir verða valdir til að setja fram tillögur sínar og að lokum verður sú besta valin.

Markmiðið er að vinna þetta eins hratt og mögulegt er, þó þannig að ekkert verið slegið af kröfum okkar um hús sem þjónar garðinum, en ber hann ekki ofurliði. Húsið á að bjóða upp á salernisaðstöðu og skiptiaðstöðu fyrir foreldra ungabarna, ásamt því að vera fallegt kaffihús, ekki ósvipað Kaffi Flóru í Laugardalnum, þar sem foreldrar geta setið og fylgst með börnum sínum leika sér í garðinum. Hugsanlega verður leiktækjum fjölgað í nágrenni hússins, sem verður í suð-austur hluta garðsins (nálægt stóru rauðu klifurgrindinni). Keikja verkefnisins er ekki að auðga kaffihúsaflóru Reykjavíkur, heldur að Hljómskálagarðurinn nýtist betur sem samverustaður fyrir fjölskyldurnar í borginni.

Meirihlutinn hefur átt ákaflega gott samstarf við minnihlutann í þessu máli, enda mikilvægt að Hljómskálagarðurinn verði ekki að pólitísku bitbeini.