Ágætis byrjun

Á fimmtudaginn hélt ég fyrirlestur í Þjóðminjasafninu undir yfirskriftinni: „Reykjavík — hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór?“. Fundurinn tókst framar vonum og var troðfullt út úr dyrum. Ánægjulegast var þó að finna viðbrögðin frá þeim sem voru mættir, því það er ekki sjálfgefið að þriggja kortera fyrirlestur um borgarmálefni eigi upp á pallborðið hjá öllum. En mér til mikillar ánægju voru viðbrögðin á eina lund jákvæð og greinilegt að fólk hafði mikinn áhuga á því sem fyrirlesturinn fjallar um. Nokkrir hafa skrifað færslur á netið um fyrirlesturinn.

Ómar Ragnarsson gerir meðal annars að umtalsefni nýjar hugmyndir um þéttingu byggðar og  Hilmar Þór Björnsson arkitekt víkur fallegum orðum að fyrirlestrinum hér þar sem hann ræðir um umferðarmál í Reykjavík. Það er gaman að fá svo jákvæð viðbrögð, ekki síst frá mönnum sem þekkja jafn vel til og þessir tveir.

Það hafði lengi staðið til hjá mér að halda fyrirlestur um það sem ég var að læra í Edinborg, og mér fannst kjörið að slá því saman við opinbert upphaf kosningabaráttunnar minnar fyrir prófkjörið síðar í mánuðinum. Við sem erum í framboði ákváðum í samráði við Valhöll, að reyna að halda kostnaði og umfangi prófkjörsbaráttunnar í lágmarki. Málefnafundurinn minn á fimmtudaginn var haldinn í þeim anda og í þeirri trú að fólk hafi áhuga á því að vita fyrir hvað frambjóðendur til borgarstjórnar standa og hvaða framtíðarsýn þeir hafa.

Eftir þessa fínu byrjun kosningabaráttunnar var haldinn ‘opinn vinnudagur’ í vinnuaðstöðunni okkar í gær, þar sem fjöldi manns mætti og þáði kaffi og vöfflur í góðra vina hópi. Mikið af sjálfstæðisfólki var á rúntinum á milli frambjóðanda og ég heyri ekki annað en að það hafi gengið vel hjá öllum og frambjóðendur hafi almennt sýnt sýnar bestu samkvæmishliðar!

Þær tvær vikur sem eru fram að prófkjöri munu vonandi nýtast vel; kjósendur vera áhugasamir um að kynna sér konur, menn og málefni og frambjóðendurnir fúsir til að lýsa framtíðarsýn sinni og stefnu í málefnum borgarinnar, sem við viljum öll gera enn betri.