Grafarvogurinn og Vatnsmýrin

Spurningin um flugvöllinn snýst ekki bara um innanlandsflug og smekk manna fyrir byggð í Vatnsmýri. Hún snýst ekkert síður um önnur hverfi Reykjavíkur. Reykvíkingum mun fjölga um 30 þúsund manns á næstu 50 árum og við verðum að fara að ákveða hvar þetta fólk á að búa. Ef flugvallarsinnar fengju sínu framgengt og lítil sem engin byggð yrði í Vantsmýri, liggur fyrir að megnið af þessum 30 þúsundum myndu búa austast í borginni, í Úlfarsfelli og Geldinganesi.

Fyrir fólkið sem býr í Grafarvogi væru þetta alveg sérstaklega vondar fréttir. Úlfarsfellingar þurfa að komast vestur eftir í skóla eða vinnu kvölds og morgna. Ef ekki verður byggt í Vatnsmýrinni verður hverfið í Úlfarsfelli að minnsta kosti 20 þúsund manna. Eina leiðin vestur úr Úlfarsfelli er eftir Ártúnsbrekkunni, sem getur í raun ekki tekið við einum einasta bíl í viðbót. Í stað þess að bíða þar í umferðarteppu óttast margir að íbúar Úlfarsfells fari í gegnum Grafarvoginn, t.d. eftir Hallsvegi, með tilheyrandi slysahættu, mengun, hávaða og öðru því sem fylgir 10-20 þúsund bíla umferð, kvölds og morgna. Að mínu mati væri þetta alvarleg atlaga að þeirri góðu hverfisstemningu sem Grafarvogsbúar hafa náð að skapa. Engir foreldrar myndu vilja senda krakkana sína gangandi á æfingar í Fjölni við þessar aðstæður.

Við verðum að koma í veg fyrir þetta og leiðin til þess er að hætta að prjóna við hin frábæru hverfi okkar austast í borginni. Styrkjum þau frekar sem fjölskylduvæn og örugg hverfi með rólegri bílaumferð. Við höfum nóg pláss fyrir fólksfjölgunina vestar. Það er algengur misskilningur að þétt byggð skapi umferðarteppur. Staðreyndin er sú að það er dreifða byggðin í Reykjavík sem býr til umferðartafir. Það eru engar umferðarteppur í þéttbýlustu hverfum borgarinnar, eða í miðborginni sjálfri. Teppurnar myndast þegar við þurfum að flytja heilu hverfin þvert í gegnum borgina kvölds og morgna. Og hverfin sem eru í miðjunni líða fyrir það. Spyrjið bara fólkið í Hlíðunum sem þarf að halda börnunum innandyra þegar svifrykið er sem mest.

Byggð í Vatnsmýri myndi forða Grafarvoginum frá því að verða gegnumaksturshverfi og auka lífsgæði um alla borg.