Reykjavík — hvað ætlar þú að verða?

Ákveðið hefur verið að halda aftur fundinn Reykjavík — hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór? Síðast komust færri að en vildu, og fjölmargir hafa óskað eftir því að fyrirlesturinn verði endurfluttur. Við ætlum því að endurtaka leikinn á fimmtudaginn kl. 1730 í Þjóðminjasafninu.

Í fyrirlestrinum lýsi ég framtíðarsýn minni fyrir Reykjavík, ræði það hvernig borgin hefur þróast undanfarin ár, og hver viðfangsefnin eru á næstu árum. Þrátt fyrir kreppu og offramboð af húsnæði, er nefnilega mikilvægt að við tökum réttar ákvarðanir núna, þannig að við séum tilbúin þegar þjóðfélagið fer að rétta úr kútnum. Eitt af vandamálunum við góðærisbrjálæðið síðast, var að sveitarfélögin voru að vinna skipulagið sitt undir mikilli pressu frá verktökum og peningafólki, sem eðlilega vildi vinna hlutina hratt. Þegar sú pressa fer að aukast á ný (eftir 2-4 ár?) þarf borgin að vera búin að taka mikilvægar ákvarðanir um það hvernig hún á að þróast. Tími ákvarðana er þess vegna núna og því er eðlilegt að fólk hafi áhuga á því hvernig frambjóðendur sjá þróun borgarinnar fyrir sér.

Ég hlakka til að sjá ykkur á fundinum á fimmtudaginn, kl. 1730 í Þjóðminjasafninu.