Allt fullt

Þriðji og síðasti fyrirlesturinn minn fyrir þetta prófkjör var haldinn í Þjóðminjasafninu í gær. Húsfyllir var, eins og á fyrri fundum og hafa nú allir þrír fundirnir verið haldnir fyrir fullu húsi.

Það er sérstakt ánægjuefni að 400 manns skuli hafa haft nægan áhuga á borgarmálum til að sitja undir stífum fyrirlestri um framtíð Reykjavíkur í þrjú kortér, þegar fólk hefur svo sannarlega annað við tímann að gera. Fundirnir hafa verið öllum opnir þannig að á þá hefur mætt fólk úr öllum flokkum og úr öllum stéttum. En gestirnir hafa allir átt það sameiginlegt að hafa áhuga á því hvert borgin stefnir og hvaða verkefni bíða næsta kjörtímabils.

Það er rétt að ítreka, þótt flestum sem lesa þetta hljóti að vera það ljóst, að myndbrot frá fyrsta fyrirlestrinum eru hér til hliðar. Ég vona að sem flestir hafi litið á þessi brot og kynnt sér þá framtíðarsýn sem ég legg fram.

Mér hefur þótt einna vænst um að sjá þann fjölda kollega minna sem mætt hefur á fundina. Í gær komu bæði borgarstjóri og formaður borgarráðs, og raunar formaður Sjálfstæðisflokksins einnig. Margir þingmenn hafa einnig mætt. Þetta er ánægjulegt í ljósi þess að sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að umræða um stjórnmál mun í vaxandi mæli tengjast málefnum borganna. Eftir því sem stærri hluti þjóða býr í borgum, munu viðfangsefnin verða leyst á forsendum þeirra.