Prófkjörið

Það er ánægjulegt að sjá hvað prófkjör okkar sjálfstæðisfólks á laugardaginn hefur fengið góð viðbrögð. Flestir virðast sammála um að baráttan hafi farið vel fram og að listinn feli í sér góða blöndu af nýliðum og fólki með reynslu. Ég tek undir það mat. Geir Sveinsson og Áslaug Friðriksdóttir verða að óbreyttu nýir borgarfulltrúar flokksins á næsta kjörtímabili, og skammt undan er Hildur Sverrisdóttir sem nær stórfínum árangri í prófkjörinu og verður væntanlega öflugur varaborgarfulltrúi næstu 4 árin.
Hvað sjálfan mig varðar er alltaf leiðinlegt að ná ekki þeim árangri sem stefnt er að. Keppnin um 2. sætið var hinsvegar mikil og atkvæði í það sæti dreifðust á 5 frambjóðendur. En tvennt er jákvætt út frá mínum sjónarhóli:

- Ég er í 2. sæti þeirra sem stefndu á annað sætið, aðeins 289 atkvæðum frá því að ná sætinu.
- Aðeins 18 atkvæðum munar að ég nái 3. sætinu.

Þrátt fyrir þetta uni ég 5. sætinu ekkert illa. Ég hef ástríðu fyrir borgarmálunum og er þakklátur fyrir það tækifæri sem ég hef fengið til að vinna að þeim. Ég hef alltaf sagt að ég er í borgarpólitík útaf fyrriparti þess orðs, en ekki hinum síðar, og ég get vonandi lagt gott til málanna úr hvaða sæti sem er.

Í prófkjörsbaráttunni lagði ég höfuðáherslu á málefni og þá framtíðarsýn sem ég stend fyrir. Til þess að kynna hana hélt ég fyrirlestra í Þjóðminjasafninu, eins og lesendur þessarar síðu vita. Fyrirlestrarnir tókust vonum framar, og í stað eins fyrirlesturs eins og ég hafði áætlað, urðu þeir þrír. Áhugasamir geta séð brot úr fyrsta erindinu á myndbrotum hér á síðunni. Sá málefnalegi tónn sem slegin var í þessari baráttu, verður áfram ríkjandi í mínum störfum fyrir Reykjavík. Ég held að á þessum krepputímum þegar lítil uppbygging er í gangi, sé mjög mikilvægt að við ræðum framtíðarsýn okkar fyrir Reykjavík. Hvert á borgin að stefna, hvernig líf viljum við bjóða borgurunum upp á og hvað við viljum gera þegar landið fer að rísa á ný í efnahagsmálum? Það væru stór mistök að vera gripin á bólinu á nýjan leik þegar auðvaldið fer aftur á stjá og vill fara að framkvæma. Þá eigum við að vera tilbúin með skipulag og tímasetningar, og tímin til undirbúnings er núna.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem studdu mig í prófkjörsbaráttunni kærlega fyrir stuðninginn. Sá hópur sem lagði nótt við dag í þessari baráttu var stór og öflugur, og var rekinn áfram af tveimur af göfugustu hvötunum sem við þekkjum: Vináttu og hugsjón. Það er ekki hægt að kalla það annað en forréttindi að fá að vinna með slíku fólki.