Áfram Reykjavík!

Það er hátíðisdagur í Reykjavík í dag, þegar tvö borgarlið keppa úrslitum bikarkeppninnar í fótbolta. Reykjavíkurborg á auðvitað að stefna að því að liðin hennar taki sem flesta bikara og vinni sem flesta leiki í öllum íþróttum. Fyrir nokkrum árum gerðist það að flestir stærstu bikararnir í karla og kvennaflokki fóru til félaga utan höfuðborgarinnar. Í handbolta karla og kvenna eru aðeins 3 lið af 8 úr Reykjavík og í báðum deildum er utanbæjarliði spáð sigri. Vonandi ná Reykjavíkurliðin að snúa á þann spádóm.

Í körfunni hafa suðurnesjaliðin verið ótrúlega sterk, en nokkur Reykjavíkurlið hafa tekið góðar skorpur inn á milli, og vonandi verður þetta okkar vetur.

Í fótboltanum er þetta allt að koma. Valur og KR einoka kvennafótboltann, Valur varð íslandsmeistari í karlaflokki í fyrra og nú verður bikarinn alveg örugglega í Reykjavík næsta árið.

Árangur Fjölnis er frábær og það hefur verið gaman að fylgjast með liðinu í sumar. Engu að síður vona ég að KR yfirspili þá í dag og að bikarinn fari í Vesturbæinn. Mér finnst KR-ingar eiga það skilið eftir að hafa spilað fínan fótbolta í sumar þar sem ekki hefur verið lagt upp með neikvætt öryggissjónarmið, heldur hefur verið spilað á gleðinni og hæfileikar þeirra sem spila fyrir klúbbinn hafa fengið að njóta sín. Vonandi gera þeir það í dag líka. Áfram KR!